144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[19:00]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Já, mér hefur tekist að skapa hér snúningsstöðu. Ég skal reyna að gera mitt til að greiða úr henni. Það er ekki af vantrausti við hv. atvinnuveganefnd sem ég reifaði þetta sjónarmið. Það var einfaldlega vegna þess að ég hlustaði eftir þeim sjónarmiðum sem komu fram í umræðunni. Nú ætla ég að gera það að tillögu minni og vona að það stytti þessa umræðu, að við getum lokið henni og haldið áfram með önnur mál, að málið fari eins og menn bjuggust við til atvinnuveganefndar. Ég geri það líka að tillögu minni að málið fari til umsagnar í umhverfis- og samgöngunefnd sem og til efnahags- og viðskiptanefndar vegna þess að þetta mál snertir algjörlega viðfangsefni allra þessara nefnda. Síðan treysti ég nefndinni og nefndunum vel til að fara yfir málið, taka öll þau sjónarmið sem fram hafa komið hér, ekki síst hvað þau atriði varðar er ég nefndi um almannaréttinn. Það (Forseti hringir.) sem hefur komið fram hér er að nú er tækifæri til að taka þær athugasemdir sem hér hafa komið fram og vinna að lausn málsins þannig að við getum verið sem flest sátt við þessa málsmeðferð.