144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[19:03]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni sem talaði hér á undan, það eru ágætisrök fyrir því að senda þetta mál til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og þá sérstaklega það sem ég sagði í mínu fyrra innleggi, að þetta mál er nátengt almannaréttinum sem er til efnislegrar meðferðar í tengslum við náttúruverndarlög sem nú eru í meðförum hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Ég kalla hins vegar eftir því að hv. forsætisnefnd fari aðeins að skoða þessi mál því að þetta er ekki í fyrsta sinn sem við reifum það til hvaða nefndar mál eigi að fara.

Ég vil rifja upp þegar rammaáætlun var send til hv. atvinnuveganefndar sem kom öllum að óvörum hér í þingsal. Ég vil líka rifja upp að í þingsköpum Alþingis er sérstaklega fjallað um að byggðamál heyri undir hv. umhverfis- og samgöngunefnd en eigi að síður var byggðaáætlun afgreidd frá hv. atvinnuveganefnd. Það virðist sem öll mál leiti til hv. atvinnuveganefndar í þessum sal, hverjar sem skýringarnar kunna að vera á því. Það er spurning hvort þetta sé einhvers konar útþenslustefna (Forseti hringir.) hjá hv. atvinnuveganefnd en þetta er mál sem hv. forsætisnefnd ætti að taka til skoðunar. Auðvitað eigum við ekki að standa hér og reifa undir liðnum fundarstjórn forseta hvert málin eigi að fara.