144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[19:12]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að hann vitnaði í orð hv. formanns atvinnuveganefndar um að mikilvægt væri að leiða málið til lykta í sátt við almannaréttinn. Það er rétt og kannski hrygglengjan í þessu máli og grunnurinn sem það verður að hvíla á í sátt og sameiginlegum skilningi þingsins á því hvað almannarétturinn ber í sér. Nú er það svo að nákvæmlega almannarétturinn er til umfjöllunar hjá umhverfis- og samgöngunefnd í samráði við umhverfis- og auðlindaráðuneytið, og ráðuneytið hefur nú á dögunum komið til nefndarinnar til þess að gera grein fyrir stöðu nokkurra kafla náttúruverndarlaga og þar á meðal kaflanum um almannarétt.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann deili ekki þeim skilningi með mér að umhverfis- og samgöngunefnd þurfi að hafa leitt það til lykta í samráði við umhverfisráðuneytið hver skilningur þingsins skuli vera á almannaréttinum áður en hægt er að halda lengra með frumvarp iðnaðarráðherra um náttúrupassa.

Svo vil ég láta þess getið líka í þessu andsvari að ég sjálf er þeirrar skoðunar að nákvæmlega með þeim rökum sé eðlilegast að mál iðnaðarráðherra fari til umhverfis- og samgöngunefndar til umfjöllunar, til umsagnar í atvinnuveganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd, og styð því fram komna tillögu hv. þm. Róberts Marshalls.