144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[19:14]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef næm eyru og ég hlustaði á hv. þm. Róbert Marshall og heyrði hann segja þegar hann kom með þessa hugmynd sína, sem var kannski ekki í fullu samræmi við fyrri ræðu hans, að hún væri of seint fram komin. Ég veit því ekki enn þá hvort um tillögu er að ræða. Auðvitað geta þingmenn hvenær sem er komið með slíkar hugmyndir, en mér finnst það ekki skipta máli. Þingið bara útkljáir það, það er fínt ef þingmenn vilja kjósa um það. Ef sú skoðun sem ég hef er undir mun ég ekki einu sinni ganga dapur til sængur.

Svo ætla ég að gera mjög sterka athugasemd við fyrstu setninguna í ræðu hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur. Hún lét þá þau orð falla að almannaréttarkaflinn væri til umfjöllunar hjá hv. umhverfis- og samgöngunefnd í samráði við umhverfisráðuneytið. Ég er algjörlega á móti slíku samráði. Ég hef alltaf verið á móti því að þingnefndir séu að vinna í samráði við ráðuneytin. Þau mega þiggja ráð, fá leiðbeiningar, fá upplýsingar, en ég dreg algjörlega skýra línu á milli löggjafans og framkvæmdarvaldsins í þeim efnum. Ég hef svo oft orðið vitni að því þegar ráðuneyti eru að reyna að fjarstýra svona málum. Ég reyndi það ekki sjálfur sem ráðherra, eins og þingmenn vita, og þess vegna geri ég athugasemdir við það og læt mig litlu varða það hláturskjöltur sem kemur hér úr hliðarherbergi.

Varðandi hina efnislegu spurningu vek ég athygli hv. þingmanns á því að eins og ég þekki málið verður að afgreiða náttúruverndarlögin fyrir þinglok, vegna þess að ella taka þau óbreytt gildi 1. júlí og það er ekki víst að allir verði sáttir við það. Um það var samkomulag, menn reyndu að vinna það. Ég sé því ekki að það verði nokkur tímalegur árekstur, en mér finnst alveg sjálfsagt að þessi mál séu millum þingnefndanna unnin í nánu samráði og ekki síst það að þetta mál sé komið sem lengst og helst lokið (Forseti hringir.) þegar að því kemur. En ég undirstrika að sáttin sem mér finnst vera að myndast hérna (Forseti hringir.) er um það að almannarétturinn verði ekki skertur.