144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[19:19]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu en vil lýsa ánægju minni yfir því að fram hefur komið af hálfu hæstv. ráðherra að þetta mál fari til atvinnuveganefndar eins og flestir gerðu ráð fyrir að það gerði. Ég vil fullvissa hæstv. ráðherra og þingheim allan um að nefndin mun taka á þessu máli af festu og öryggi.

Það sem stendur upp úr í mínum huga eftir þessa umræðu, sem er orðin drjúglöng, er að það er mjög ríkur vilji, finnst mér, hér í þinginu til að þetta mál fái farsælan endi og er ríkur samstarfsvilji meðal þingmanna um það. Þess vegna treysti ég því að sú verði raunin þegar málið verður tekið til umfjöllunar í hv. atvinnuveganefnd.

Ég er mjög fylgjandi því að leitað verði umsagna bæði umhverfis- og samgöngunefndar og efnahags- og viðskiptanefndar um málið þannig að sem breiðust samstaða náist og við getum klárað málið með sóma þannig að hvort tveggja náist, markmiðin um að innheimta gjald, sem er í eðli sínu bæði einfalt og skilvirkt, og að við getum lagt okkar af mörkum með því gjaldi til að vernda íslenska náttúru og byggja upp nauðsynlega innviði á ferðamannastöðum.