144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

fjárfestingarsamningur við Thorsil ehf. um kísilmálmverksmiðju í Helguvík í Reykjanesbæ.

420. mál
[19:38]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin hefur einsett sér að auka nýfjárfestingar sem stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi á Íslandi og jákvæðum efnahagslegum áhrifum á byggðaþróun og þjóðarbúið í heild sinni. Atvinna er undirstaða velferðar og í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin leggur áherslu á að skapa skilyrði fyrir hagvöxt sem knúinn verður áfram af auknum útflutningi og bættri framleiðni hjá hinu opinbera og í einkageiranum.“

Það frumvarp sem nú er til umræðu er því í fullu samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar. Ég styð frumvarpið því heils hugar og fagna því að það sé loks lagt fram á Alþingi. Sú sem hér stendur átti um árabil sæti í atvinnu- og hafnaráði Reykjanesbæjar og er jafnframt íbúi í því bæjarfélagi nú. Ég þekki því mjög vel til ferils þessa máls, þróunar atvinnumála í bæjarfélaginu og stöðu bæjarfélagsins í dag. Ég er sannfærð um að þessi samningur og uppbygging kísilvers í Helguvík verði mikil lyftistöng fyrir bæjarfélagið og Suðurnesin öll. Það mun ótvírætt hafa talsverð efnisleg áhrif, þ.e. fjölga beinum störfum og jafnframt afleiddum störfum, en það mun ekki síður hafa huglæg áhrif, þ.e. að sýna fólki fram á að nú taki við uppbyggingartímabil eftir langa bið og dökka tíma þar sem vonleysi hefur á stundum tekið yfir andann.

Í greinargerð frumvarpsins um mat á áhrifum kemur meðal annars fram að uppbygging kísilversins muni draga verulega úr atvinnuleysi á svæðinu. Og það er það sem íbúar á Suðurnesjum þurfa, fleiri störf. Á framkvæmdatíma Thorsil ehf. er gert ráð fyrir að um 350 starfsmenn komi að uppbyggingu kísilmálmverksmiðjunnar. Á rekstrartímanum er síðan áætlað að um 130 manns starfi við framleiðsluna, þar af 30 starfsmenn með sérhæfða menntun eins og stjórnunar- og tæknimenntun. Munar þá um minna.

Atvinnuleysi hefur minnkað á Suðurnesjum á síðustu missirum þó að það sé enn með því mesta sem gerist á landinu og hlutfallslega enn þá talsvert yfir meðaltali á landsvísu. Samkvæmt áætlunum er gert ráð fyrir að atvinnuleysi á rekstrartímanum dragist saman um 1 prósentustig ef miðað er við óbreytt atvinnuleysi á svæðinu. Ekki var unnin sérstök greining á því hversu mörg óbein og afleidd störf munu skapast í tengslum við fjárfestingarverkefnið en ýmislegt bendir til að heildaráhrifin yrðu fjölgun upp á 1,5 afleidd og óbein störf fyrir hvert nýtt starf, að frádregnum svokölluðum ruðningsáhrifum.

Mig langar að grípa hér niður í greinargerðina, bls. 15. Þar koma fram athyglisverðar upplýsingar sem varða mat á áhrifum sem varða þekkingarmyndun og nýsköpun. Mig langar að grípa aðeins niður í textann, með leyfi forseta:

„Reynslan af rekstri sambærilegra iðjuvera á Íslandi hefur sýnt að þau eru uppsprettur mikilvægrar nýsköpunar. Iðjuverin hafa lagt áherslu á að útvista starfsemi sem áður var unnin innan veggja þeirra á þeim tíma þegar almenn þekking var ekki til í samfélaginu til að takast á við þau.“

Svo er vitnað hér og tekið dæmi um Fjarðaál. Hér segir einnig:

„Þessa þróun má sjá hjá öllum iðjuverunum en gleggst er hún sennilega hjá Fjarðaáli. Þar starfa 450 manns við rekstur iðjuversins en um 300 manns til viðbótar starfa við þjónustu sem er svo nátengd álverinu að störfin fara að mestu leyti fram á álverslóðinni sjálfri og aðliggjandi höfn.“

Þetta eru góðar fréttir fyrir okkur á Suðurnesjum.

Meginefni frumvarpsins snýr að ívilnunum á sköttum og opinberum gjöldum sem ætlað er að veita Thorsil ehf. Þær ívilnanir sem fyrirtækið fær eru verulegar. Ég verð að viðurkenna að ég hafði í fyrstu ákveðnar efasemdir varðandi þær ívilnanir. Ástæðan er sú að mér þóttu þær ansi ríflegar, og þær eru það, en eftir nánari skoðun tel ég að þessar ívilnanir séu í fullu samræmi við sambærilega samninga og mun því sofa rólega þess vegna. Auk þess var haft gott samráð við stjórnendur Reykjanesbæjar og mig langar að grípa aftur hér niður á öðrum stað í greinargerðinni. Þar er farið yfir í hverju samráðið fólst og vitnað í umsögn bæjarráðs Reykjanesbæjar sem barst nefndinni 15. janúar 2014 og þar er bein tilvitnun. Þar kemur fram að Reykjanesbær hafi „fylgst með hugmyndum um þróun verkefnis þeirra aðila er nú standa að Thorsil ehf. og fengið vandaða kynningu á því. Verkefnið er að okkar [bæjarráðs Reykjanesbæjar] mati mjög áhugavert og sveitarfélagið reiðubúið að styðja það í hvívetna“. Í umsögninni kemur einnig fram að Reykjanesbær sé ,,reiðubúinn að veita félaginu þær ívilnanir sem snúa að sveitarfélaginu og heimilaðar eru samkvæmt lögum nr. 99/2010“.

Í yfirlýsingu frá 30. maí 2014 staðfestir bæjarstjóri Reykjanesbæjar fyrir hönd Reykjanesbæjar að hann hafi yfirfarið drögin að fjárfestingarsamningnum og að þau atriði samningsins er lúta að samþykkt Reykjanesbæjar séu í samræmi við samþykkt bæjarráðs Reykjanesbæjar en þar er um að ræða ívilnanir í formi lægra hlutfalls fasteignaskatts og gatnagerðargjalds fyrir félagið. Reykjanesbær samþykkti fyrir sitt leyti að veita ráðherra heimild til undirritunar fjárfestingarsamningsins með framangreindum undanþágum. Og í framhaldinu undirritaði hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra samninginn og í kjölfarið hófst undirbúningur að framlögðu frumvarpi.

Ég ætla ekki að fara ítarlega yfir í hverju ívilnanirnar felast því að það gerði hæstv. ráðherra ágætlega áðan en mig langar til að draga fram að í frumvarpinu er sérstakur fyrirvari um sérstaka heimild í fjárlögum, kveðið á um sérstaka þjálfunaraðstoð vegna kostnaðar við þjálfun í tengslum við verkefnið, allt að 2 milljónum evra eða sem svarar til um 308 millj. kr. Ástæða þess að ríkið hyggst veita þjálfunaraðstoð er sú að um nýjan iðnað er að ræða á Íslandi og er verkþekking á þessu sviði takmörkuð á starfssvæði félagsins. Í frumvarpinu er kveðið sérstaklega á um að ríkisstjórnin muni eftir fremsta megni leitast við að fá heimild í fjárlögum fyrir árið 2016 fyrir þessari þjálfunaraðstoð.

En hvaða stærðir erum við að tala um í krónum talið sem felast í umræddum ívilnunum? Samkvæmt þeim er miðað við fyrirliggjandi rekstraráætlun Thorsil ehf. áætlað að greiðslur vegna skatta og gjalda til ríkisins sem veittar yrðu ívilnanir á nemi 550 millj. kr. en að þær væru 913 millj. kr. án þeirra miðað við 13 ára rekstrartíma. Eftirgjöf skatta og gjalda ríkisins næmu þannig um 362 millj. kr. Fyrir sveitarfélagið og Reykjaneshöfn er gert ráð fyrir að þessar greiðslur sem ívilnanir yrðu veittar út á mundu nema 639 millj. kr. en þær yrðu 1.047 millj. kr. án ívilnananna á tímabilinu. Eftirgjöf sveitarfélagsins og Reykjaneshafnar næmi þannig um 408 millj. kr. Ekki yrðu veittar frekari ívilnanir eftir það samkvæmt samningnum. Má því líta svo á að hin opinbera aðstoð til félagsins næmi samtals nærri 770 millj. kr. sem félagið fengi samanlagt frá ríki og Reykjanesbæ.

Í fjárfestingarsamningnum er sett þak á ívilnanir sem nemur tæpum 770 millj. kr. en það er framangreind fjárhæð á núvirði miðað við 7,5% árlega afvöxtun. Við útreikninginn var stuðst við viðmið og reglur um ríkisstyrki samkvæmt EES-samningnum. Þá er settur tímafrestur um gildi samningsins en réttur til ívilnana héldi fullu gildi í tíu ár frá þeim tíma sem til viðkomandi skattskyldu eða gjaldskyldu væri stofnað af hálfu félagsins en þó aldrei lengur en í 13 ár frá gildistöku samningsins.

Að þessu sögðu spyr maður sig þeirrar spurningar hvort fyrirtækið gæti mögulega misnotað þessar ívilnanir á einhvern hátt. Ekki það að ég vilji gera stjórnendum fyrirtækisins upp óheiðarleika en með hagsmuni ríkis og sveitarfélags að leiðarljósi er nauðsynlegt að spyrja ágengra spurninga og allt að því ókurteislegra.

Að athuguðu málið sýnist mér vel búið um hnútana að þessu leyti í samningnum þar sem í honum eru ítarleg ákvæði tengd réttri notkun ívilnana og eftirliti henni tengdu. Sem dæmi um það ber samkvæmt 19. gr. fjárfestingarsamningsins félaginu að senda atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu árlega skýrslu um framvindu fjárfestingarverkefnisins, hlut ívilnunar í framgangi þess, samtals fjárhæð veittrar ríkisaðstoðar á undanförnu ári og tilgreiningu á annarri starfsemi aðila ef einhver er. Ráðuneytið getur óskað þess að löggiltur endurskoðandi staðfesti þessar upplýsingar. Í greininni eru jafnframt nokkuð ítarleg ákvæði um endurkröfur á veittri ríkisaðstoð samkvæmt samningnum. Og ef fjárfestingarverkefnið, eins og það er nánar skilgreint í fjárfestingarsamningnum, verður ekki að veruleika eða ef starfsemi Thorsil verður verulega frábrugðin því fjárfestingarverkefni sem samningurinn miðar við innan fimm ára frá gildistöku samningsins skal félagið endurgreiða allar þær ívilnanir og ríkisaðstoð sem félaginu hefur verið veitt á grundvelli samningsins. Þetta er því alveg skýrt.

Að lokum má nefna að skýrt er kveðið á um það í 12. gr. samningsins að um hann og túlkun hans skuli gilda íslensk lög. Ekki er að finna ákvæði um gerðardóm líkt og tíðkast hefur í öðrum fjárfestingarsamningum sem íslenska ríkið hefur áður gert um stærri nýfjárfestingarverkefni hér á landi.

Þetta er nóg fyrir mig. Ég er sannfærð. Þarna er um áþreifanlega aðgerð að ræða sem miðar að því að fjölga störfum á Suðurnesjum. Ég verð að játa að fyrir mína parta hugnast mér slíkar aðgerðir betur en stofnun starfshóps um eflingu atvinnulífs og samfélags á Suðurnesjum. Ég vil ljúka ræðu minni á því að fagna heils hugar framlögðu frumvarpi öðru sinni, fyrir hönd íbúa á Suðurnesjum sérstaklega og ekki síður fyrir hönd annarra landsmanna, þar sem ég tel að rekstur kísilvers í Helguvík muni auka hagvöxt og þar með velsæld hér á landi.