144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

fjárfestingarsamningur við Thorsil ehf. um kísilmálmverksmiðju í Helguvík í Reykjanesbæ.

420. mál
[19:50]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ytri augu sjá oft hið rétta eðli einstaklingsins miklu betur en hann sjálfur. Hæstv. iðnaðarráðherra kallaði mig hér áðan lítillátan. Lítillæti er æðst dyggða, ég er þakklátur henni fyrir það hrós. Verð þó að bæta því við að það er vonum seinna, eftir langa samferð hér á Alþingi Íslendinga, sem hún skilur mitt rétta eðli loksins.

Ég vil ítreka það sem ég sagði hér áðan að stuðningur minn við þessi verkefni er ótvíræður. Ég vænti þess að þetta nái fram að ganga. Það er sannarlega þörf fyrir verkefni af þessu tagi á Suðurnesjum, það skapar 140 störf, 30 störf fyrir sérmenntað vinnuafl. Það sem gleður mig mest er það að ríki og bær taka höndum saman um verkefnið. Í Reykjanesbæ er nú tekin við völdum stórhuga bæjarstjórn sem þarf að axla það erfiða verk að rífa bæinn út úr miklum fjárhagsþrengingum. Bæjarstjórnin hefur gert það af miklum vaskleika eins og fram hefur komið í fregnum, en eigi að síður er staðan þannig að allt sem getur skapað tekjur til frambúðar skiptir máli. Þess vegna lýsir það líka miklum stórhug af hálfu bæjarfélagsins að koma að þessu verkefni með þeim hætti sem hér var lýst áðan af hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur. Samtals reiða ríki og bæjarfélagið af höndum, þegar allt er talið, 730 millj. kr. Þar af er bærinn með ríflega helming. Það er nú ekki ofílátið finnst mér af ríkinu.

Fjárfestingarsamningar af þessu tagi eru góðs maklegir. En sá sem situr á stóli og stýrir þingi nú fyrir aftan mig veit að ég hef haft á þessu aðrar skoðanir en margir aðrir. Ég tel að það væri sæmilegt að ganga miklu lengra en reglur ESA og Evrópusambandsins og EES-samningsins leyfa. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það sé mjög erfitt að færa rök að því að um einhvers konar ójafnræði sé að ræða þegar menn gera samninga af þessu tagi ef þeir eru með sólarlagsákvæði innan rýmilegs tíma. Ég tek það að vísu fram að ég er mjög hræddur við þetta sólarlagsákvæði sem er til 13 ára vegna þess að ég er hjátrúarfullur, 13 er ekki góð tala. En ég hef oftsinnis átt, ég segi ekki, í munnhöggi við fjármálaráðherra í þeim ríkisstjórnum sem ég hef setið. Ég hef talið að ekkert væri að því og erfitt að færa rök að því að það skaðaði samkeppnisstöðu annarra ef menn mundu ganga töluvert dýpra en farið er þarna. Það liggur alveg fyrir að Suðurnes eru svæði sem hafa átt við mikla kvöl að stríða frá því að herstöðin lokaði á sínum tíma. Það má segja að hún hafi með vissum hætti kæft þá vaxtaranga sem maður hefði ella vænst að mundu spretta upp í kjölfar slíkrar blóðtöku. Reynslan hefur sýnt að þegar stór fyrirtæki fara úr samfélagi þá eru þau oft furðulega skjót að ná sér upp en til þess þarf ákveðna innviði og ákveðna samsetningu af vinnuauðnum. Þetta vildi ég nú segja.

Út af því sem við áttum hér örlítinn orðastað um áðan, Helguvík, vil ég einungis segja að það er alveg hárrétt hjá hæstv. iðnaðarráðherra að ég get stundum verið stórorður. En það væri náttúrlega fullt tilefni til þess að fara með nokkur stór orð núna um frammistöðu hæstv. ráðherra gagnvart Helguvík og bera það saman við orð hennar áður. Það fór enginn jafngeyst og hæstv. ráðherra. Og eins og ég sagði áðan þá lauk þeirri þeysireið ekki fyrr en hún hrökk af baki um það bil tveimur mánuðum eftir að hún tók við embætti. Hún hélt — ég vil ekki segja fimbulfambi — en sínum orðagangi áfram töluvert lengi. Það eimir af því enn þá að hún sé að kenna fyrri ríkisstjórn um þá stöðu. En við vitum bæði af hverju þessi staða er uppi og þetta er tilefni til þess að vera með stór orð, en ég ætla að spara þau. Ég tel ekki að það skipti nokkru máli.

Ég vil bara nota þetta til þess að undirstrika þessa lexíu, að menn eiga oft að vara sig áður en þeir láta tilganginn helga meðalið. Í þessu máli, að því er varðar Helguvík, þá finnst mér ekki að hæstv. ráðherra hafi tekist að feta það vandrataða meðalhóf, en ég ímynda mér að einhverjir aðrir, sem eru verr innrættir en ég er þrátt fyrir allt, mundu nota tækifærið, ég ætla ekki að gera það.

Hún sagði hér áðan að málið væri í kyrrstöðu og þá langar mig til þess að spyrja hana: Eru einhverjar líkur á því að í bráðri framtíð, á þessu ári, til þess að takmarka það skeið, taki framkvæmdir í Helguvík aftur á rás?