144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

fjárfestingarsamningur við Thorsil ehf. um kísilmálmverksmiðju í Helguvík í Reykjanesbæ.

420. mál
[19:55]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru sannarlega föðurlegar umvandanir og ábendingar sem fram koma hjá hv. þingmanni og ég verð bara að taka þeim hér. Ég verð þó að segja við hv. þingmann að ég get algjörlega kinnroðalaust borið höfuðið hátt þegar kemur að minni ráðherratíð hvað varðar uppbyggingu í Helguvík, vegna þess að í minni tíð er búið að skrifa undir tvo fjárfestingarsamninga, þessi er hinn síðari. Annað verkefnið er farið af stað með framkvæmdir við kísilver United Silicon, og ég vona svo sannarlega að þetta verkefni fari af stað, og það veit hv. þingmaður. Það getur vel verið að ég hafi viðhaft stór orð en þau áttu sitt tilefni og það var svo sannarlega innstæða fyrir þeim á sínum tíma. Hvað varðar það hvort það verkefni fari af stað þá vísa ég til þess sem sérstaklega forsvarsmenn Norðuráls ítreka reglulega í fjölmiðlum og í samtölum við mig að ásetningur þeirra um uppbyggingu álvers í Helguvík er óbreyttur. Við getum horft á stöðuna á álmörkuðum. Þar eru skilyrði að verða hagstæðari. Ég vona því svo sannarlega að til þess komi að við náum lúkningu í þessu máli, vegna þess að ég held að það sé mjög mikilvægt, ekki bara fyrir þetta svæði heldur líka fyrir íslenskt efnahagslíf.

Í millitíðinni, á meðan þessi staða hefur verið uppi, höfum við svo sannarlega ekki slegið slöku við í verkefnum sem snerta þetta svæði frekar en önnur svæði á landinu og til viðbótar því sem ég hef nefnt má nefna örþörungaverksmiðju Algalíf sem búið er að gera samning við og er komin af stað og svo fyrirhugaða þingsályktunartillögu um innviðauppbyggingu í Helguvík, sem er í smíðum í ráðuneytinu.