144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

uppbygging innviða fyrir ferðamenn til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

427. mál
[20:15]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Ég er með nokkrar spurningar, í fyrsta lagi varðandi það sem kemur fram í 5. gr. frumvarpsins um verkefnisstjórn. Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra um aðkomu Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðsstjórnar og Þingvallanefndar þegar um er að ræða forgangsröðun verkefna í samræmi við áætlunina: Hver er aðkoma þeirra aðila í ljósi þess að Umhverfisstofnun hefur umsjón með yfir 100 friðlýstum svæðum? Og eins og fram kom í máli ráðherrans er þar að hluta til um að ræða mikilvæga ferðamannastaði.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra — ég hef farið hér yfir frumvarpið og athugasemdir við það og þá velti ég fyrir mér aðkomu Náttúrufræðistofnunar Íslands þar sem samkvæmt markmiðsákvæðinu er verið að tala um uppbyggingu, rekstur og viðhald innviða í þágu náttúruverndar. Skráning og utanumhald að því er varðar náttúruvernd, vistgerðarflokkun og skráning á slíku er á borði Náttúrufræðistofnunar. Ég sakna þess að sjá hvert hlutverk stofnunarinnar er bæði við gerð áætlunarinnar en ekki síður framkvæmd hennar.

Síðan vil ég spyrja hæstv. ráðherra um 8. gr. frumvarpsins þar sem kemur fram að landeiganda sé heimilt að taka gjald fyrir veitta þjónustu og spyr hvernig það kemur heim og saman við aðra þá umræðu sem hér hefur verið í gangi, meðal annars umræðuna sem varðar náttúrupassa og gjaldtökuheimildir þar að lútandi.