144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

uppbygging innviða fyrir ferðamenn til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

427. mál
[20:21]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi Náttúrufræðistofnun þá hefur hún ekki lögum samkvæmt neina umsögn með þessu, en eins og ég gat um áðan finnst mér eðlilegt að við sækjum í þann viskubrunn sem er til staðar í þeirri stofnun eins og hv. þingmaður gat um varðandi t.d. vistgerðaflokkun o.fl. Verndaráætlun sem Vatnajökulsþjóðgarður starfar eftir passar alveg prýðilega og verður höfð að leiðarljósi líka í þessari vinnu.

Varðandi samning við landeigendur talaði ég nokkuð skýrt varðandi það í ræðunni og vísa ég þar í 8. gr. Ég veit ekki hvað hv. þingmaður var helst að kalla eftir varðandi það. Ég hef sagt það opinberlega og segi það enn að ég held að það sé algerlega nauðsynlegt, eins og rætt hefur verið hér síðustu daga á Alþingi, að tekið verði gjald til þess að við getum byggt upp ferðamannastaði okkar. Ég held að það sé alveg augljóst. Hér hefur verið tekist nokkuð á um hvaða form ætti að vera á þeirri gjaldtöku. Eins og kemur fram í því frumvarpi sem ég hef hér mælt fyrir munum við ekki greiða landeigendum styrk til uppbyggingar nema þar sé frjáls för fyrir almenning.