144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

loftslagsmál.

424. mál
[20:54]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012. Um er að ræða breytingar til að innleiða tilskipanir og reglugerð ESB sem hafa verið teknar upp í EES-samningnum. Að auki er lögð til tæknileg breyting á útreikningi losunargjalds sem kveðið er á um í 14. gr. laganna.

Í fyrsta lagi er um að ræða innleiðingu á tilskipun 2009/31/EB um geymslu koldíoxíðs í jörðu. Í frumvarpinu er lagt til að geymsla koldíoxíðs í jarðlögum á þann hátt sem tilskipunin mælir fyrir um verði bönnuð tímabundið. Hér er um að ræða tímabundið bann því að ákvæði tilskipunar skylda Ísland til að annaðhvort banna eða heimila niðurdælingu og setja um leið upp regluverk og eftirlitskerfi með niðurdælingu í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar.

Við greiningu ákvæðanna kom í ljós að þau virðast miða við allt aðrar aðstæður og aðferðafræði en notast er við hér á landi í tilraunaverkefnum á þessu sviði á Hellisheiði sem kölluð er CarbFix eða SulFix. Í verkefnunum er reynt að binda koldíoxíð í kristalformi í basalti en í tilskipuninni virðist einungis gert ráð fyrir geymslu í gas- eða vökvaformi í setlögum. Í tilskipuninni er gerð ströng krafa um eftirlit í áratugi og bann sett við geymslu koldíoxíðs á jarðskjálftasvæðum.

Virðulegi forseti. Nauðsynlegt er að gefa sér betri tíma til að setja reglur um geymslu koldíoxíðs við íslenskar aðstæður. Fyrir liggur að Evrópusambandið hyggst á næstunni endurskoða ákvæði tilskipunarinnar og mun Ísland beita sér til að tryggja að tekið verði tillit til þeirrar aðferðar sem notuð er hér á landi og er brautryðjendastarf á heimsvísu. Tímabundið bann hefur ekki áhrif á tilraunaverkefnin á Hellisheiði en á að tryggja að við uppfyllum kröfur EES-samningsins án þess að festa í lög ótímabærar og líklega ónauðsynlegar kvaðir á hugsanlega niðurdælingu síðar í stærri stíl. Íslensk stjórnvöld voru hlynnt niðurdælingu koldíoxíðs og bindingu í basalt og telja hana merkilegt framtak sem getur sýnt fram á gagnsemi kolefnisbindingar í basalti á heimsvísu.

Í frumvarpinu er skýrt tekið fram að bannið eigi ekki að hafa áhrif á verkefni í rannsóknar-, þróunar- eða prófunarskyni þar sem ætlunin er að geyma í heild minna en 100 kílótonn koldíoxíðs. Frumvarpið mun því að svo stöddu ekki hafa áhrif á framangreind verkefni á Hellisheiði en jafnframt er mælt fyrir um í frumvarpinu að ákvæði um bann við niðurdælingu koldíoxíðs verði endurskoðað ekki seinna en árið 2020. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur skipað nefnd sem er ætlað að vinna drög að regluverki sem mundi gilda til lengri tíma. Tekið verður tillit til íslenskra aðstæðna við þá vinnu.

Þess ber að geta að Eftirlitsstofnun EFTA sendi íslenskum stjórnvöldum rökstutt álit fyrir um ári síðan vegna þess að innleiðingu tilskipunar var ekki enn lokið hér á landi. Það er því brýnt að ljúka þessu máli sem fyrst.

Í öðru lagi er um að ræða innleiðingu á tilskipun 2009/33/EB um að stuðla að notkun á hreinum og orkunýtnum ökutækjum. Frumvarpið kveður á um að opinberir aðilar skuli við innkaup á farþega- og vöruflutningabifreiðum taka tillit til líftímakostnaðar farartækis hvað varðar orkunotkun þess og umhverfisáhrif. Miðað er við innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum sem ákveðin eru á hverju ári fyrir Evrópska efnahagssvæðið. Útreikningur líftímakostnaðar bifreiðar getur haft í för með sér að hagkvæmara verði að kaupa inn bifreið sem gengur fyrir vistvænni orku heldur en hefðbundna bifreið, jafnvel þótt innkaupaverð sé hærra. Samþykkt frumvarpsins á að stuðla að því að ríki og stærstu sveitarfélög munu kaupa fleiri sparneytin og umhverfisvæn ökutæki.

Í þriðja lagi er verið að ljúka innleiðingu reglugerðar ESB nr. 421/2014 sem Alþingi samþykkti á síðasta vorþingi að skyldi innleiðast með bráðabirgðaákvæði um loftslagslög. Ákvæði frumvarpsins til bráðabirgða er ætlað að tryggja að reglugerð ESB sé að fullu innleidd. Í ákvæðinu er kveðið á um að til ársins 2016 verði gildissvið laganna um viðskiptakerfi með losunarheimildir í flugi takmarkað við flugstarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu. Í stuttu máli má segja að með þessu sé framkvæmd viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir einfölduð tímabundið hér á landi hvað flugstarfsemi varðar.

Í fjórða og síðasta lagi er lögð til í frumvarpinu tæknileg breyting hvað varðar viðmiðunartímabil fjárhæðar losunargjalds samkvæmt 14. gr. laganna. Í frumvarpinu er lagt til að viðmiðunartímabilið verði fært fram um einn mánuð og verði frá 1. ágúst ár hvert til 31. júlí næsta árs. Þessi breyting er lögð til svo hægt sé að láta breytingu á fjárhæð gjaldsins fylgja fjárlögum ár hvert. Breytingin hefur ekki áhrif á fjárhæð gjaldsins til lengri tíma eða aðra þætti.

Virðulegi forseti. Rétt er að geta þess að við undirbúning frumvarpsins var haft samráð við Orkuveitu Reykjavíkur sem er í forsvari fyrir CarbFix- og SulFix-tilraunaverkefnin á Hellisheiði. Einnig var haft samráð við Ríkiskaup og Umhverfisstofnun auk þess sem hagsmunaaðilum var boðið að skila umsögn um frumvarpið.

Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins og legg til að því verði vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar að lokinni 1. umr.