144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

stjórn vatnamála.

511. mál
[21:09]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og tel næsta víst að hún þekki meira til þessa máls en sú sem hér stendur. Það er alveg rétt að ég hef farið yfir þetta mál og það hefur valdið mér nokkrum áhyggjum eins og þingmaðurinn gat um. Farið hefur verið yfir málið í samráði við aðila og reynt að einfalda það og tekur ríkið nú á sig 1/3 af kostnaðinum. Við teljum mikilvægt að standa vörð um hreinleika vatns og ímyndar okkar bæði fyrir matvælaframleiðslu og fyrir atvinnuvegi landsins í heild, það er mikilvægt fyrir gæðin, og að vera með samræmdar reglur eins og aðrir hafa í kringum okkur. Þarna er okkur gert að samræma eins og gert er hjá EES þannig að ég held að við getum ekki skorast undan því að þetta verði svona. Fundin hefur verið besta leiðin og milduð frá því sem hún var í upphafi og þá ekki síst með því að ríkið taki hluta af kostnaðinum á sig. Fyrst var talað um að settir væru á gjaldmælar sem hefðu auðvitað kostað miklu meira. Talað er að það hefði kostað um 2–3 milljarða að setja upp vatnsmæla. En þarna er farin einfaldari leið sem fundin var með samræðum við alla þá aðila sem þingmaðurinn gat um hér áðan.