144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

stjórn vatnamála.

511. mál
[21:13]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við reynum, sannarlega reynum við, að tryggja að það fjármagn sem hér innheimtist renni óskert til þessa málstaðar enda viljum við skapa þá ímynd fyrir landið sem ég gat um áðan.

Við erum hér að fullgilda tilskipun sem sett var árið 2011 sem tók þá öll gildi nema 9. gr. En segja má að við séum nú að festa það sem þar er kveðið á um, en þar getur um að aðildarríki eigi að sjá til þess að þeir sem nýta sér vatnsþjónustuna greiði fyrir hana. Við uppfyllum engan veginn þau lög í dag og það er ýmislegt sem vinna þarf að, eins og varðandi vatnsverndarnefndir, og fara þarf yfir umsagnir og skýrslur.

Það er líka rétt sem hv. þingmaður gat um, ekki hefur verið útfært nákvæmlega hvernig gjaldtakan lendir á sveitarfélögunum og orkustofnunum þannig að þau þurfa að koma sjálf með hugmyndir að því hvernig þau útfæra þá gjaldtöku. Hún getur því kannski orðið almenn. Helst á hún samt að gilda fyrir atvinnufyrirtæki en ekki almenning.