144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

almenn hegningarlög.

475. mál
[22:10]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum.

1. gr. frumvarpsins er sú eina fyrir utan gildistökuákvæðið og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„125. gr. laganna fellur brott.“

Þetta er afnám tiltekinnar lagagreinar í almennum hegningarlögum sem er Íslandi og íslenskum hegningarlögum ekki til sóma heldur þvert á móti.

Tjáningarfrelsið er einn af hornsteinum lýðræðis. Það er grundvallaratriði í frjálsu samfélagi að almenningur geti tjáð sig án ótta við refsingar af nokkru tagi, hvort heldur sem er af völdum yfirvalda eða annarra.

125. gr. almennra hegningarlaga er svohljóðandi: „Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum. Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.“

Með þessu frumvarpi er lagt til að ákvæðið verði afnumið. Fólk hefur ólíka sýn á lífið og því er viðbúið að tjáning sem einn telur eðlilega telji annar móðgandi. Sem betur fer eru upplifanir fólks af lífinu og tilverunni afskaplega ólíkar. Því er með öllu óraunhæft að ætla mannlegum hugsunum, tilfinningum og skoðunum að rúmast alltaf innan ramma svokallaðs almenns velsæmis.

Því hefur verið haldið fram að óþarfi sé að hafa áhyggjur af þeirri lagagrein sem hér er lagt til að verði felld brott þar sem kæruheimildin sé afar sjaldan notuð og lagagreinin því í rauninni dauður lagabókstafur:

Í fyrsta lagi gengur sú röksemdafærsla út frá því sem gefnu að lagagreinin sé óréttmæt.

Í öðru lagi hefur almenningur rétt á því að geta kynnt sér hegningarlög og áttað sig með einhverjum hætti á því hvaða takmarkana sé ætlast til á hegðun manna og tjáningu. Því geta lögin haft hamlandi áhrif á samfélagið án þess að komi til kasta dómstóla.

Í þriðja lagi geta ráðamenn Íslands ekki fordæmt beitingu sambærilegra lagagreina í ófrjálsari löndum meðan þær er einnig að finna í refsilöggjöf hérlendis.

Nýverið var gerð mannskæð árás á ritstjórn tímaritsins Charlie Hebdo í París og er talið að tilefni árásarinnar sé meðal annars það að útgáfan hefur birt teikningar af Múhameð spámanni. „Assalamú ala kúllí nas.“

Slíkar árásir á fólk vegna tjáningar eru því miður ekki nýlunda og lýðræðissamfélög verða að svara slíkum árásum með þeim skýru skilaboðum að tjáningarfrelsið muni aldrei lúta fyrir manndrápum, ofbeldi eða hótunum. Meðal annars af þeirri ástæðu leggja flutningsmenn frumvarpsins til að Alþingi leggi sitt af mörkum við að koma þeim skýru skilaboðum á framfæri með því að gera frumvarp þetta að lögum.

Íslensk löggjöf hefur oft verið gagnrýnd fyrir ýmsa vankanta af alþjóðastofnunum, meðal annars þann að dæma má fangelsisrefsingu fyrir ólögmæta tjáningu, þar á meðal guðlast. Fjölmargt fleira þarf að bæta til þess að sú gagnrýni heyri sögunni til en hér er lagt til að einn augljósasti smánarbletturinn á almennum hegningarlögum verði afmáður.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarp þetta gangi til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.