144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

almenn hegningarlög.

470. mál
[22:37]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Þetta er mjög merkt frumvarp. Með því er lagt til að lögfest verði í almenn hegningarlög sérstakt refsilagaákvæði sem taki sérstaklega til heimilisofbeldis. Sérstök áhersla er lögð á alvarleika brota sem teljast til heimilisofbeldis. Tilgangur frumvarpsins er að draga úr tíðni slíks ofbeldis eins og segir í greinargerð, vernda þolendur og taka um leið á vanda gerenda. Skilyrði þess að brot falli undir ákvæðið er að brot beinist gegn maka, fyrrverandi maka, barni eða öðrum sem er nákominn geranda og tengsl þyki hafa aukið á grófleika verknaðarins. Um sérstakt refsiákvæði er að ræða sem beitt verður eftir atvikum samhliða öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga sem háttsemin getur einnig fallið undir.

Frumvarpið felur jafnframt í sér að lögreglan hafi heimild til að ákæra fyrir brot gegn nálgunarbanni en í núverandi löggjöf sæta slík brot aðeins ákæru að kröfu þess sem misgert var við. Þetta er mikilvæg nýjung sem skiptir miklu máli.

Undanfarin ár hafa íslensk stjórnvöld lagt áherslu á baráttuna gegn ofbeldi í nánum samböndum. Heimilisofbeldi er málefni sem varðar allt samfélagið og oft er um langvinn og erfið mál að ræða sem eru andlega erfið fyrir þolendur og aðstandendur og einnig erfið til rannsóknar. Ofbeldi sem viðgengst á heimilum er ekki einkamál viðkomandi aðila heldur samfélagslegt mein.

Með tilkomu frumvarpsins fæst skýrari mynd af umfangi og alvarleika heimilisofbeldis um leið og hægt verður að taka á ofbeldinu með ákveðnari hætti en gert er í dag. Það verða að teljast mikilvægir almannahagsmunir að draga úr hvers kyns ofbeldi og þá sérstaklega því sem beinst getur að börnum með alvarlegum afleiðingum. Þolendur heimilisofbeldis sýna oft einkenni meðvirkni. Frumvarpinu er ætlað að koma í veg fyrir að það sé einungis á valdi þolenda ofbeldis að ákveða hvort kært sé í slíkum málum, eins og áður segir. Heimilisofbeldi er samfélagslegt mein þar sem brotaþoli kann í kjölfar kæru, vegna tengsla sinna við geranda og fyrri samskipta, að standa frammi fyrir frekari ofsóknum eða ógnunum í einni eða annarri mynd sem telja verður sérstaklega meinlegar fyrir þann sem misgert er við og fjölskyldu hans.

Telja verður að lögfesting frumvarpsins muni hafa táknræn áhrif á afstöðu samfélagsins, þess efnis að taka skuli harðar á brotum sem framin eru í skjóli fjölskyldubanda. Mun lagasetningin hafa fyrirbyggjandi áhrif og jafnframt leiða til þess að gerendum verði kleift að leita sér viðeigandi hjálpar.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur frá árinu 2005 unnið eftir ákveðnum verklagsreglum þegar kemur að skráningu og meðferð heimilisofbeldis. Á árinu 2013 voru 355 tilfelli heimilisofbeldis skráð hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins en á árinu 2012 voru þau 327 talsins. Árin þar á undan voru tilfellin um 300 á ári. Ætla má að það sem tilkynnt er til lögreglu sé vegna eðlis þessara brota einungis lítill hluti brotanna.

Samkvæmt úttekt embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum er ljóst að fá mál í flokknum heimilisofbeldi hljóta meðferð innan réttarkerfisins. Þá er rannsókn slíkra mála einnig ábótavant þrátt fyrir aukna áherslu stjórnvalda á málaflokkinn undanfarin ár. Þetta gerist á sama tíma og lagabreytingar voru gerðar sem ætlað var að stuðla að framþróun mála á þessu sviði. Til að mynda voru úrræði laga nr. 85/2011, um nálgunarbann og brottvísun af heimili, ekki nýtt sem skyldi. Einnig er skortur á stuðningi bæði fyrir þolendur og gerendur heimilisofbeldis. Að mati embættisins er málaflokkurinn heimilisofbeldi ekki litinn nægilega alvarlegum augum í samfélaginu og þörf er á viðhorfsbreytingu. Ríkt tilefni er til að skerpa á afstöðu löggjafans gagnvart heimilisofbeldi í almennum hegningarlögum og auka möguleika á notkun úrræða til að sporna við og uppræta slíkt ofbeldi.

Í ljósi viðhorfa hérlendis og erlendis um málefni fjölskyldunnar og þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands á þessu sviði verður að teljast rökrétt að íslensk refsilöggjöf endurspegli með skýrari hætti mat löggjafans á því að brot sem framin eru í samskiptum nákominna hafi ákveðna sérstöðu. Þá er horft til refsiréttar og afbrotafræðilegra raka er tengjast varnaðaráhrifum og sjónarmiðum um táknræn áhrif slíkra réttarreglna á félagslegt samneyti þeirra sem tengjast fjölskylduböndum. Í ljósi framangreindra sjónarmiða og þjóðréttarlegra skuldbindinga Íslands í tengslum við fullgildingu Istanbúlsamningsins er nauðsynlegt að lögfesta sérstakt refsiákvæði um heimilisofbeldi. Í dag hafa 11 ríki fullgilt Istanbúlsamninginn en 10 ríki þurfti til að hann tæki formlega gildi.

Síðastliðin missiri hefur verið rekið tilraunaverkefni á vegum lögreglu og félagsþjónustu á Suðurnesjum sem kallast Að halda glugganum opnum. Af reynslunni af því verkefni verður dregin sú ályktun að núverandi löggjöf sé fullnægjandi þegar kemur að fyrstu úrræðum við heimilisofbeldi, þ.e. að bjóða fram aðstoð og meta ástand og áhættu. Hins vegar skortir lagaheimildir til að fylgja eftir málum þegar frumúrræðin duga ekki til. Þá er einnig nauðsynlegt að huga að börnum sem þurfa að sæta eða horfa upp á ofbeldi á heimilum sínum, þeim griðastað sem heimili barna á að vera.

Þetta frumvarp er mikilvægt skref í þá átt að stöðva heimilisofbeldi og verja þolendur þess með öllum ráðum. Það er því full ástæða til að hvetja þingmenn til að veita þessu góða máli brautargengi.