144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

virðisaukaskattur.

411. mál
[22:45]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum. Lagafrumvarpið miðar að því að breyta virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar og er í grunninn til þess ætlað að verja og efla í senn sjálfboðaliðastarf íþróttahreyfingarinnar og efla mannvirkjagerð. Lagafrumvarpið er að finna á þskj. 608, mál nr. 411. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þingmenn Ásmundur Friðriksson, Páll Jóhann Pálsson, Haraldur Einarsson og Silja Dögg Gunnarsdóttir.

Við hinir sömu flutningsmenn stóðum að þingsályktunartillögu um endurskoðun á virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar og lögðum hana fram á 143. löggjafarþingi í máli nr. 487 á þskj. 847. Sú tillaga hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að taka til endurskoðunar virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar og leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, sem felur í sér að:

a. íþrótta- og ungmennafélög verði undanþegin virðisaukaskatti af starfsemi sinni, að öllu leyti,

b. íþrótta- og ungmennafélög hafi heimild til að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af byggingu íþróttamannvirkja á íþróttasvæðum sínum, vinnulaunum og efniskaupum.“

Það náðist að mæla fyrir þessari þingsályktunartillögu, taka málið fyrir í nefnd og senda til umsagnar. Margar góðar og gagnlegar ábendingar bárust og allar jákvæðar, meðal annars frá Almannaheillum, Samtökum þriðja geirans, Bandalagi íslenskra skáta, Kristilegu félagi ungra manna og kvenna. Það einkenndi umsagnir þessara félagasamtaka að vilja ganga lengra með þessa tillögu þannig að hún nái til allra félagasamtaka en mjög jákvæðar umsagnir voru um tillöguna sem slíka. Þá voru ýmsar umsagnir mjög jákvæðar og málinu til stuðnings með sterkum rökfærslum, meðal annars frá íþróttafélögum, sveitarfélögum og sérsamböndum. Jafnframt bárust umsagnir frá Samtökum atvinnulífs, Viðskiptaráði og ríkisskattstjóra sem studdu óumdeilt þjóðhagslegt mikilvægi íþróttahreyfingarinnar en almennt eru þessir aðilar á móti frekari undanþágum í virðisaukaskattskerfinu.

Það sem hefur breyst frá því að við flutningsmenn þingsályktunartillögunnar lögðum hana fram er að við leggjum nú fram lagafrumvarp með sömu markmið í huga. Þar eru lagðar til þær breytingar á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, sem við teljum þjóna markmiðum frumvarpsins. Markmiðið er að ríkisstjórnin komi að því að efla skipulega íþróttastarfsemi og þátttöku foreldra og annarra sjálfboðaliða í skipulegu íþróttastarfi í þeim tilgangi að verja og efla sjálfboðaliðastarf þannig að forráðamenn og foreldrar geti lagt íþróttahreyfingunni starfskrafta sína áfram og það án þess að vera fjárhagslega persónulega ábyrg.

Í öðru lagi að efla mannvirkjagerð í þeim tilgangi að tryggja að allir iðkendur, afreksmenn og aðrir iðkendur, og sjálfboðaliðar geti notið sem bestrar aðstöðu og aðbúnaðar við íþróttaiðkun sína og þannig hlúð að öllu félagsstarfi íþrótta- og ungmennafélaga.

Lagafrumvarp þetta er jafnframt í fullu samræmi við markmið og stefnuskrá ríkisstjórnarinnar þar sem lögð er áhersla á mikilvægi íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsmála, en þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin leggur áherslu á mikilvægi íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsmála og samþættingu leiks og náms eftir því sem kostur er. Stuðla ber að því að sem flestir geti fundið eitthvað við sitt hæfi hvort sem um ræðir íþróttir, listnám, listsköpun eða félagsstarf. Slíkt starf þroskar einstaklinginn og hefur mikið forvarnargildi.“

Virðulegi forseti. Hugur ríkisstjórnarinnar til æskulýðs-, íþrótta- og tómstundamála fer ekki á milli mála og forvarnargildi og þjóðhagslegt mikilvægi skipulagðrar félags- og íþróttastarfsemi er í raun viðurkennt og staðfest. Frumvarpið sem við ræðum hér er sannarlega innlegg í þá fyrirætlan og í samræmi við þær áherslur sem boðaðar eru í þessum efnum í stjórnarsáttmálanum.

Ef ég sný mér nú frekar að frumvarpinu þá snýr 1. gr. frumvarpsins að því að verja hið öfluga sjálfboðaliðastarf sem íþróttahreyfingin hvílir að meginstofni til á. Má orða það svo að án þessa sjálfboðaliðastarfs gætum við ekki haldið úti því metnaðarfulla starfi sem raun ber vitni. I. kafli virðisaukaskattslaganna fjallar um skattskyldusvið og hér teljum við flutningsmenn að til að koma til móts við þarfir íþróttahreyfingarinnar og styðja og efla sjálfboðaliðastarfið í hreyfingunni þurfi að koma til breyting á 2. gr. laganna, eða eins og lagt er til í 1. gr. frumvarpsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Við 3. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr töluliður sem orðast svo: Þjónusta og vörusala íþróttafélaga sem stunduð er í því skyni að afla fjár til að standa undir kjarnastarfsemi slíkra félaga, þ.m.t. fjáröflun vegna keppnis- og æfingaferða félagsmanna, svo sem sala auglýsinga, útgáfustarfsemi, verslunarrekstur, veitingasala og sala varnings eða þjónustu.“

Um þessa grein, sem snýr að sjálfboðaliðastarfinu, er það að segja að undanþágur eða starfsemi undanþegin virðisauka er talin upp í 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Eins og lögin eru í dag er íþróttastarfsemi undanþegin, eins og fram kemur í 5. tölulið 3. mgr. 2. gr. laganna. Í leiðbeiningariti ríkisskattstjóra um skattskyldu íþróttafélaga er meðal annars fjallað um þetta undanþáguákvæði, nánar tiltekið á bls. 4. Með leyfi forseta ætla ég að fá að lesa það til nánari útskýringar:

„Samkvæmt undanþáguákvæði 5. tölulið 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga er íþróttastarfsemi undanþegin virðisaukaskatti. Jafnframt er leiga á aðstöðu til íþróttastarfsemi undanþegin auk þess sem sérstaklega er kveðið á um það að aðgangseyrir að sundstöðum, skíðalyftum, íþróttamótum, íþróttasýningum og heilsuræktarstofum njóti undanþágu.“

Síðar segir:

„Öll sala íþróttafélaga á aðstöðu til æfinga og iðkunar íþrótta (félagsgjöld/æfingagjöld) fellur undir undanþáguákvæðið. Sama á við til dæmis um aðgangseyri að keilubrautum og snókerborðum. Starfsemi innan Skáksambands Íslands og Bridgesambands Íslands fellur einnig hér undir.“

Þess ber að geta að í afmörkun skattyfirvalda á því hvað telst til íþrótta- og ungmennafélaga er átt við félag sem hefur íþróttir á stefnuskrá sinni og hefur fengið aðgang að íþróttahreyfingunni með aðild að héraðssambandi eða íþróttabandalagi og þar er vitnað til II. kafla laga Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Almennt er talið að túlka beri ákvæðið í 2. gr. virðisaukaskattslaganna ásamt öðrum undanþágum þröngt þannig að einvörðungu er átt við tekjur af aðgangseyri af íþróttaviðburðum, tekjur af æfingagjöldum og aðrar þær tekjur sem beint tengjast íþróttastarfseminni og eru ekki í samkeppni við aðra sem stunda virðisaukaskattsskylda atvinnustarfsemi. Eins og ég sagði áðan má þar vitna til 2. töluliðs 1. mgr. 3. gr. um virðisaukaskattsskylda atvinnustarfsemi þar sem segir meðal annars, með leyfi forseta.

„Skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð hvílir á þessum aðilum:

2. Samvinnufélögum, svo og öðrum félögum og stofnunum, enda þótt þau séu undanþegin skattskyldu samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, eða sérstökum lögum, að því leyti sem þessir aðilar selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Skattskyldan tekur einnig til þess þegar einungis er selt félagsmönnum eða eingöngu eru seldar skattskyldar vörur og þjónusta félagsmanna.“

Íþróttafélög teljast ekki skattskyldir aðilar samkvæmt lögum þessum um tekjuskatt, nr. 90/2003, þar sem félögin teljast ekki reka atvinnu eins og segir í þeim lögum. Undanþágan frá virðisaukaskatti nær þannig til aðgangseyris að íþróttamótum og annarri íþróttatengdri starfsemi, félagsgjalda og opinberra fjárframlaga, greiðslna vegna félagaskipta og þátttöku í leikjanámskeiðum og dómgæslu. Sú staðreynd að ekki ber að innheimta virðisaukaskatt af æfingagjöldum, aðgöngumiðum að íþróttaviðburðum felur um leið í sér að íþróttafélög geta ekki innskattað keypt aðföng, þau fá ekki endurgreiddan virðisaukaskatt af keyptum aðföngum vegna þeirrar starfsemi og það má sjá og glöggva sig á því í 4. mgr. 2 gr. virðisaukaskattslaganna en þar segir:

„Undanþágur skv. 3. mgr. ná aðeins til sölu eða afhendingar vinnu og þjónustu sem þar getur, en ekki til virðisaukaskatts (innskatts) af aðföngum til hinnar undanþegnu starfsemi, sbr. 3. og 4. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr.“

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða tæknilega upptalningu á lögunum en það er svo að rekstrarumfang íþrótta- og ungmennafélaga er orðið þó nokkuð. Þegar litið er til veltutalna, og án þess að ég ætli að tiltaka hér sérstök dæmi, þá hleypur rekstur íþrótta- og ungmennafélaga á tugum milljóna og í sumum tilfellum á hundruðum milljóna hvert félag fyrir sig. Það er jafnframt mikil skörun á afreksstarfi meistaraflokka og yngri flokka og um leið mikill munur á fjárþörf. Þó að oft og tíðum sé erfitt að greina algerlega á milli afreksstarfs og afreksþjálfunar og annarrar þjálfunar almennra félagsmanna, og þá helst yngri íþróttamanna, þá er mikill munur á milli íþrótta þegar við greinum afreksstarf frá almennu félagsstarfi og uppbyggingu yngri félagsmanna en það að ná á stall afreksmanna er sú gulrót, sú hvatning, sem nauðsynleg er fyrir ungt fólk til að taka þátt í íþróttum og leggja sig fram.

Ef ég sný aftur að skattalegu efni frumvarpsins þá er reksturinn eins og ég kom inn á fjárfrekur og stjórnir og ráð eru undantekningarlaust mönnuð sjálfboðaliðum. Sem betur fer hafa foreldrar í auknum mæli tekið að sér slík störf og taka þannig þátt í uppeldisstarfi barna sinna. Þar þarf að beita ráðum til að fjármagna æfingar og keppni en nú er það þannig að þrátt fyrir að íþróttafélög séu almennt undanþegin virðisaukaskatti af starfsemi sinni þá teljast þau virðisaukaskattsskyld ef þau selja vörur eða virðisaukaskattsskylda þjónustu í atvinnuskyni eða í samkeppni við atvinnufyrirtækin. Slík skylda nær einnig til þess þegar vörur og þjónusta eru eingöngu seld félagsmönnum. Þannig ber íþróttafélagi að skrá sig á virðisaukaskattsskrá ef samanlagðar tekjur af sölu á vöru virðisaukaskattsskyldrar þjónustu eru hærri en 1 millj. kr. án virðisaukaskatts á hverju tólf mánaða tímabili.

Það má auðveldlega gefa sér að það er fljótt að safnast saman þegar við erum að horfa á eitt félag með tíu deildir og tíu til tólf flokka innan hverrar deildar aldursskipt. Það gefur auga leið, þegar við lítum til þess umfangsmikla reksturs og þeirra leiða sem sjálfboðaliðar leita, að þeim er þröngur stakkur sniðinn til að fjármagna starfsemina og það er ekki æskilegt að flækja hlutina eða setja sjálfboðaliða í þá ábyrgðarstöðu sem þessu fylgir. Því leggjum við áherslu á að fjáröflunarleiðir falli undir undanþáguákvæði laganna; fjáröflun í því skyni að standa undir kjarnastarfsemi, þar með talið vegna keppnis- og æfingaferða félagsmanna. Þegar við erum að skoða þessar fjáröflunarleiðir þá teljum við upp auglýsingar, útgáfustarfsemi, veitingasölu og sölu varnings og þjónustu.

Fyrst er til að taka að sala á auglýsingum eða kostun á grundvelli samstarfssamninga er virðisaukaskattsskyld starfsemi og ber að innheimta og skila virðisaukaskatti af þeirri sölu eins og málum er háttað í dag. Þar er tiltekin sala á auglýsingastæðum, sala á auglýsingum á keppnisbúningum og sala auglýsinga eða styrktarlína í leikskrár og félagsblöð. Þrátt fyrir þessa skyldu er það nú oftast svo að endurgjald íþróttafélaganna er ekki í nokkru samræmi við framlagið eða greiðsluna og því meira þannig að um veitta styrki sé að ræða. Í því sambandi má vitna til úrskurðar yfirskattanefndar, nr. 194/2007, með þeirri niðurstöðu að greiðsla fjármálafyrirtækis til samtaka á grundvelli samstarfssamnings feli að nokkru leyti í sér fjárstuðning í þágu félagsmanna þrátt fyrir birtingu á auglýsingu í tímariti samtakanna, svo og auglýsingaborða á heimasíðu samtakanna. Í þessu tilfelli má segja að yfirskattanefnd hafi vefengt að einhverju leyti það að samstarfssamningar séu í öllum tilvikum hreinir auglýsingasamningar.

Þá er oft um tilfallandi útgáfustarfsemi í formi blaða og tímarita að ræða þar sem birtar eru auglýsingar og ekki um að ræða varanlega starfsemi yfir lengra tímabil. Eins og áður sagði er algengt að um styrki sé að ræða fremur en auglýsingar þar sem auglýsingagildið er takmarkað þegar endurgjaldið er í engu samræmi við verðmæti hinnar svokölluðu auglýsingar. Má þar nefna sem dæmi þegar útgerðarfyrirtæki birtir mynd af togara í eigu útgerðar á auglýsingaskilti á keppnisvelli íþróttafélagsins.

Þá má fullyrða að í mörgum tilfellum sé raunverulegur kostnaður íþróttafélags við að birta auglýsingu, til dæmis á skilti, þegar frá er talinn sá hluti greiðslu fyrirtækis sem telja verður styrk íþróttafélagsins, hærri en raunverulegar tekjur íþróttafélagsins. Þannig má vefengja um leið að auglýsingastarfsemi íþróttafélagsins sé rekin í atvinnuskyni, þ.e. hagnaðarskyni, sem er grundvöllur þess að aðili eigi að vera skráður á virðisaukaskattsskrá og skila innheimtum virðisaukaskatti í samræmi við 5. mgr. 5. gr. laga um virðisaukaskatt.

Að þessu sögðu ætti að vera hægt að réttlæta og koma því að að íþrótta- og ungmennafélög yrðu undanþegin virðisaukaskatti þegar kemur að veittum styrkjum þrátt fyrir endurgjald í formi auglýsinga fyrir slíka styrki enda sé ekki um að ræða birtingar á auglýsingum annars staðar en við keppnisvelli eða keppnissvæði eða mannvirki viðkomandi félags.

Sama má segja um birtingar auglýsingar vegna tilfallandi styrktarútgáfu. Það skal viðurkennast, þegar kemur að undanþágum, að segja má að það sé ákveðin mótsögn við þörf og stefnu í átt að einföldun virðisaukaskattskerfisins og þar á meðal er fækkun á undanþágum. Á hinn bóginn má vitna í stefnumótun mennta- og menningarmálaráðuneytisins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Í íþróttalögum segir að íþróttastarfsemi utan skóla byggist á frjálsu framtaki landsmanna.“

Einnig segir:

„Aukin þátttaka landsmanna í íþróttastarfi, jafnt keppnisíþróttum sem almenningsíþróttum þarfnast aðkomu ríkis, sveitarfélaga sem og atvinnulífs.“

Og enn fremur:

„Gerð verði heildstæð tillaga um hvað eigi að gera til þess að einfalda rekstrarumhverfi íþróttafélaga …“

En það er kjarninn í þessu frumvarpi.

Markmið þessa frumvarps uppfyllir sannarlega þá skyldu að einfalda rekstrarumhverfi íþróttahreyfingarinnar. En það skal viðurkennast að það flækir skattaumhverfið um leið og það einfaldar skattaumhverfi íþróttahreyfingarinnar. Það er ábyrgð og skylda okkar að bregðast við þeirri stöðu sem sjálfboðaliðastarf íþróttahreyfingarinnar er í og þeirri ábyrgð og raunverulegu skyldu sem hvílir á sjálfboðaliðum gagnvart skilum á virðisaukaskatti. Eins og málum er háttað getur ábyrgð stjórnarmanna og annarra sjálfboðaliða á framtals- og skýrsluskilum, skattskilum og opinberum gjöldum verið mikil og jafnvel meiri en flestir sjálfboðaliðar gera sér grein fyrir. Opinberir aðilar geta beitt þungum viðurlögum við vanskilum jafnvel fangelsisvist. Það hlýtur því að vera forgangsvilji löggjafans að einfalda rekstrarumhverfi íþróttahreyfingarinnar, að þeir hagsmunir vegi þyngra eins og málum er háttað.

Grunnurinn að öflugu íþróttastarfi á Íslandi hefur lengi og alla tíð byggt á öflugu sjálfboðaliðastarfi þar sem velunnarar, foreldrar og forráðamenn leggja íþróttahreyfingunni lið án þess að þiggja endurgjald fyrir sín störf. Þetta óeigingjarna starf er viðurkennt í íþróttalögunum þar sem segir að íþróttastarfsemi utan skóla byggist á frjálsu framtaki landsmanna. Það þarf vart að fjölyrða um þjóðhagslegt mikilvægi íþróttahreyfingarinnar þar sem fjölmargar rannsóknir staðfesta forvarnargildi íþrótta. Jafnframt hefur verið sýnt fram á það í rannsóknum að þátttaka barna og unglinga dregur úr líkum á hvers kyns frávikshegðun, þ.e. að börn og unglingar leiðist út í einhvers konar óreglu.

Ungmenni sem ekki taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi eru til dæmis líklegri til að nota vímuefni en þau sem eru virkir þátttakendur í slíku starfi. Þátttaka barna í skipulögðu starfi hefur margvísleg önnur jákvæð áhrif en þar hefur verið sýnt fram á tengsl við námsárangur, sterkari sjálfsmynd og sjálfsvirðingu, betri heilsu og almenna andlega og líkamlega líðan. Þannig hefur skipulagsstarf íþrótta- og ungmennafélaga og sá félagslegi sess sem þau skipa skilað miklum heilsuábata í formi minna álags á heilbrigðiskerfið. Það staðfesta rannsóknir sem sýna að aukin hreyfing dregur úr tilfellum alvarlegra sjúkdóma og það hafa margs konar rannsóknir, innlendar og erlendar, sýnt fram á jákvæð áhrif á skólastarf og vinnumarkað.

Í meistaraverkefni og rannsókn Þórdísar Lilju Gísladóttur, um hagrænt gildi íþrótta, kemur fram athyglisverður kostnaðarsamanburður á því sem hún kallar — með leyfi forseta er vitnað í þetta verkefni Þórdísar — íþróttaunglingi og vímuefnaunglingi. Þar kemur fram að kostnaður samfélagsins við íþróttaunglinginn er á bilinu 17–28 þús. kr. á ársgrundvelli en sá sem verður vímuefnum að bráð kostar samfélagið 1,9–2,9 millj. kr.

Virðulegi forseti. Heillavænlega er þróunin sú að iðkendum fer fjölgandi bæði á sviði afreksíþrótta og almenningsíþrótta. Síðustu tölur frá Íþróttasambandi Íslands segja að rúmlega 27% þjóðarinnar séu skráðir iðkendur en voru 19,7% árið 1994. Um það bil helmingur þjóðarinnar er skráður félagi og þeir skipta tugum þúsunda einstaklingarnir sem manna stjórnir, nefndir og ráð endurgjaldslaust fyrir íþróttahreyfinguna.

Félagsauðurinn sem býr í íþróttahreyfingunni verður seint metinn til fjár og það uppeldislega hlutverk sem hún hefur. En það blasir við að hið félagslega uppeldisumhverfi sem íþróttahreyfingin skapar er okkur gríðarlega mikils virði og við þurfum að viðurkenna það með fjárhagslegum stuðningi.

Þörf er fyrir uppbyggingu mannvirkja til að sinna vaxandi fjölda, bæði er lýtur að keppnis- og almenningsíþróttum, barna- og unglingastarfi og kannski ekki síst að félagsaðstöðu, æfinga- og keppnisaðstöðu. Staðreyndin er sú að víða kreppir að með aðstöðu og eftirspurn er meiri en aðstaðan getur rúmað.

Í þessu frumvarpi er lagt til að mæta þessari þróun og styðja við uppbyggingu mannvirkja en 2. gr. frumvarpsins tekur til þess og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Á tímabilinu 1. janúar 2015 til 1. janúar 2016 skal endurgreiða íþrótta- og ungmennafélögum 100% þess virðisaukaskatts sem greiddur hefur verið af vinnu manna við nýbyggingu, endurbyggingu og viðhald við íþróttamannvirki, af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með nýbyggingu, endurbyggingu eða viðhalds þess háttar húsnæðis, sem og af efniskaupum til slíkra framkvæmda.“

Nú blasir við að tímasetning framlagningar frumvarpsins á síðasta ári gerir það að verkum að gaumgæfa þarf betur tímabilið sem tilgreint er í þessari 2. gr. Ég reikna með að í meðförum hv. efnahags- og viðskiptanefndar verði það skoðað. Þessi grein, 2. gr. frumvarpsins sem ég las hér hluta af, á skírskotun í endurgreiðsluátakinu Allir vinna sem fyrst var sett í gang með breytingu á lögum um virðisaukaskatt árið 2009. Þar var um að ræða 100% endurgreiðslu vegna vinnu við eigið húsnæði og sumarhús en átakið hefur nú runnið sitt skeið og frá áramótum er eins og áður um að ræða 60% endurgreiðslu. Það verður að segja að átakið tókst afar vel og er í raun verið að styðjast við þá aðferðafræði til að gera átak í mannvirkjagerð til stuðnings íþróttafélögunum en um leið sveitarfélögunum og til eflingar íþróttalífi og lýðheilsu.

Svo að aftur sé vitnað í stefnumótun í þessum efnum þá segir þar að íþróttaiðkun almennings sé einn af lykilþáttum sem geta haft áhrif á lífsstíl fólks í átt til heilbrigðara lífernis. Mikilvægt sé að tryggja góða aðstöðu til íþróttaiðkunar. Þetta er stefnumótun íþróttamálaráðherra og ráðuneytis sem gildir frá 2010–2015. Hér er lagt til að fara í átak og fylgja eftir stefnu stjórnvalda í yfirlýstum stuðningi sínum við íþróttafélögin og sveitarfélögin en ég legg áherslu á, og við flutningsmenn, að eins og í fyrra skiptið, þegar við lögðum málið fram, sé mikilvægt að vinna málið áfram í samvinnu við hæstv. fjármálaráðherra. Það þarf auðvitað að meta fjárhagsleg áhrif og svo er mikilvægt að þessar tillögur vinnist í sem mestri sátt við þá heildarendurskoðun og breytingar sem þegar eru hafnar af hálfu hæstv. ráðherra á virðisaukaskattskerfinu sem við sáum meðal annars birtast í fjárlagavinnunni og samþykktum fjárlögum.

Áætlað er að átakið Allir vinna hafi kostað ríkissjóð um 2 milljarða í töpuðum tekjum á ári en erfitt er að meta hversu mikið tímabundið átak sem hér er lagt til mundi kosta ríkissjóð. Á móti eykur það umfang á öðrum sviðum, svo sem atvinnusköpun og launatekjur, og þá tekjur fyrir ríkissjóð í öðru formi.

Benda má á að um áramótin lækkuðu vörugjöld á byggingarvörur ýmiss konar og efra þrep virðisaukaskatts lækkaði jafnframt þannig að það hjálpar allt til.

Við flutningsmenn frumvarpsins áttum góðan fund með forustumönnum íþróttafélaga víðs vegar að af landinu og áréttuðu þeir, meðal annars með ályktun, að það væri gríðarlegt hagsmunamál fyrir íþróttahreyfinguna alla að ríkið mundi styðja við bakið á íþróttahreyfingunni með því móti sem birtist hér í frumvarpinu og gera bragarbót á löggjöfinni til að styrkja sjálfboðaliðastarf og mæta aukinni eftirspurn með stuðningi við mannvirkjagerð. Orðrétt segir í yfirlýsingu þess fundar sem ég vitna til:

„Fundur formanna og fulltrúa eftirtalinna íþróttafélaga … fagnar framlögðu frumvarpi um breytingar á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Fundurinn hvetur þingheim til að taka málið á dagskrá og samþykkja þær hugmyndir sem koma fram í frumvarpinu. Það er ljóst að verði þær tillögur ofan á sem frumvarpið felur í sér mun það stórefla allt sjálfboðaliðastarf innan íþróttahreyfingarinnar hér á landi og auðvelda íþróttafélögunum alla uppbyggingu íþróttamannvirkja. Með þessum breytingum er íþróttahreyfingunni gert mögulegt að gegna áfram og með öflugri hætti en áður hlutverki sínu.“

Virðulegi forseti. Ákallið er skýrt og málið er brýnt. Þá má benda á að skuldsetning sveitarfélaga hefur og hægt mjög á uppbyggingu víða um land. Ég ætla hér að vitna í grein úr Vísi frá því í september 2014 en þar er vitnað í Halldór G. Eyjólfsson, foreldri og forráðamann, sem hefur umsjón með yngri flokkum hjá KR, með leyfi forseta:

„Aðstaðan er löngu sprungin og aldrei neitt gert í því. Samkvæmt æfingatöflu yngri flokka fyrir komandi vetur munu 14 ára drengir æfa til klukkan korter fyrir ellefu á þriðjudagskvöldum og 16 ára drengir til klukkan ellefu á fimmtudögum. Ég á sjálfur tvö börn sem eru búin að vera í þessu undanfarin ár og þetta er allt of lengi en lögbundinn útivistartími barna á aldrinum 13 til 16 ára er til klukkan tíu á kvöldin.“

Þetta er eitt lítið dæmi og svipaða sögu má segja frá mörgum félögum víða á landinu. Til dæmis eru biðlistar langir víða hjá fimleikafélögum og fimleikadeildum íþróttafélaganna.

Ég vil í lokin enn og aftur fá að vitna í þá stefnumótun sem í gildi er út þetta ár í mennta- og menningarmálaráðuneytinu í íþróttamálum. Stefna ráðuneytisins tekur mið af þeim lagaskyldum sem ríkið hefur samkvæmt íþróttalögum og alþjóðalögum og samningum sem tengjast málefnum stofnana og frjálsra félagasamtaka sem fara með íþróttamál í landinu.

Unnið skal að ákveðnum markmiðum og þar má helst tiltaka — það kemur mjög skýrt fram og er í takt við það frumvarp sem ég hef nú farið yfir — að umhverfi og skipulag íþróttastarfs í landinu verði bætt og því skipaður verðugur sess í íslensku þjóðlífi. Samhljómur er á milli þeirrar stefnu sem í gildi er, íþróttastefnumótun, og þessa frumvarps sem við ræðum nú. Hér er sannarlega á ferðinni frumvarp sem styður við lögbundnar skyldur stjórnvalda og stefnu í íþróttamálum.

Það er að sjálfsögðu trú okkar flutningsmanna að hér sé tækifæri og það tímabært til að koma betur til móts við fjölmennustu áhugamannahreyfingu þjóðarinnar sem íþróttahreyfingin er. Með samþykkt þessa frumvarps verður stigið stórt skref í þá átt að verja sjálfboðaliðastarf og efla mannvirkjagerð. Það er von okkar flutningsmanna að frumvarpið fái góðan hljómgrunn og vandaða umfjöllun og gangi að lokinni 1. umr. til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.