144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

virðisaukaskattur.

411. mál
[23:19]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir þann stuðning sem felst í orðum hans um frumvarpið. Við deilum þeirri skoðun hversu mikilvægt það er að við eflum og styrkjum sjálfboðaliðastarf og mætum þeirri þörf sem er til staðar og kemur mjög skýrt fram hjá forráðamönnum íþróttafélaganna að einfalda þarf umhverfi fyrir sjálfboðaliðana. Fjáröflunin er bara með þeim hætti í dag að löggjafinn, met ég, þurfi að bregðast við. Það er markmið þessa frumvarps. Svo er mjög mikilvægt að fara í að efla mannvirkin. Ekkert síður viljum við flutningsmenn horfa til þessa uppeldislega mikilvægis sem skipulögð íþróttastarfsemi er og hefur verið staðfest með rannsóknum.

Já, ég vona og hef fulla trú á því að við fáum góðan hljómgrunn hér í þingheimi og þingið komi með okkur í þetta. Svo legg ég áherslu á það í meðferð hv. efnahags- og viðskiptanefndar að sem flestir, íþróttafélög, félagasamtök, sveitarfélögin og aðilar eins og Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð, ríkisskattstjóri og fleiri sem láta sig þessi mál varða gefi umsagnir um málið.