144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mér þykir það frekar vond ásjón að mál sem lögð eru fram að hausti fái hér lítinn framgang. Það er ekki nóg að mæla fyrir málum þegar þau svo sitja föst í nefndum, umsagnaferli er löngu lokið og málið hreyfist ekki þrátt fyrir að dagskrá þingsins hafi oft og tíðum verið stutt, sérstaklega fyrir áramótin.

Fimmtíu þingmannamál hafa komist til nefnda. Eitt þingmannafrumvarp og ein þingsályktunartillaga hafa fengist afgreidd, hitt er allt saman fast í nefnd. Örfá mál bættust í hópinn í gærkvöldi þegar loks mátti mæla fyrir þeim, en fjölmörg mál bíða, m.a. í kringum tuttugu mál frá okkur Vinstri grænum. Virðulegi forseti. Því velti ég því upp hvort ekki væri lag að við tækjum hér einn dag og ræddum eingöngu þingmannamál. (Gripið fram í.)

Hitt málið sem ég vil gera að umtalsefni og snertir líka starfshætti þingsins er sú dæmalausa uppákoma sem varð hér í gærkvöldi þegar hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og samflokksmaður hennar og formaður atvinnuveganefndar, hv. þm. Jón Gunnarsson, tókust á um hvert vísa ætti náttúrupassanum, því vonda máli. Miðað við umræðuna sem orðin er ætti það mál líklega best heima í tætaranum enda er algjör óeining um það mál.

Það er í rauninni ótækt að ekki sé á hreinu hvert vísa beri málum eftir að mælt hefur verið fyrir þeim. Skemmst er þess að minnast þegar mál um rammaáætlun var sett í hv. atvinnuveganefnd, en þau mál hafa fram til þessa verið í rædd hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Umhverfisráðherra mælti fyrir þingsályktunartillögu um rammaáætlun, sem byggir á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Það var því mjög einkennilegt að þingsköpin skyldu túlkuð þannig að hægt væri að gera greinarmun á vernd og nýtingu og segja að virkjunarkostir í nýtingarflokki ættu heima í atvinnuveganefnd, enda hefur komið í ljós að nefndin teygir sig yfir í aðra flokka rammaáætlunar.

Þá er líka mjög undarlegt að byggðaáætlun hafi komið til meðferðar (Forseti hringir.) atvinnuveganefndar þrátt fyrir að (Forseti hringir.) þingsköp séu skýr hvað það varðar. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti, vinnulagið er skýrt og við verðum að geta treyst á að því sé fylgt.