144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort ekki sé kominn tími til að þingskapanefndin taki aftur til starfa og vil þar með taka undir það sem fram kom í tölvupósti sem hv. þm. Jón Þór Ólafsson sendi á okkur í nefndinni fyrir nokkru. Það getur verið erfitt að finna tíma fyrir þær nefndir sem ekki eru fastanefndir, en mér fannst þetta vera mjög góð nefnd. Þarna voru nýir þingmenn og þeir sem hafa meiri reynslu, einn fyrrverandi ráðherra. Mér finnst mjög mikilvægt að við höldum áfram þeirri vinnu að reyna að gera störfin í þinginu skilvirkari.

Ég sit í fjárlaganefnd og þar erum við að ræða mjög áhugavert mál sem er frumvarp um opinber fjármál, sem verður væntanlega samþykkt í vor og er þverpólitísk sátt um það. Það miðar að því að koma á aga og stöðugleika, fyrirsjáanleika, að við gerum plön þrjú eða fimm ár fram í tímann þannig að stofnanir viti hvað þær fá, ekki bara á fjárlögum hvers árs heldur fram í tímann. Það eykur aga og er hið besta mál.

En ég velti fyrir mér: Af hverju ná slík vinnubrögð ekki bara yfir allt? Af hverju erum við rosalega ánægð með þetta frumvarp en síðan þegar kemur til dæmis að þingstörfunum þá vitum við varla hvað gert verður á morgun?

Ég kalla eftir því að við reynum að gera einhverjar tilraunir til að meta hvað umræða er löng í mörgum málum. Ég held að við ættum að geta gert það.

Annað sem ég hef rekið mig á varðar þingmálaskrána sem ríkisstjórnin leggur fram. Þar eru mál sem við fáum síðan fréttir af að muni ekki verða lögð fram, jafnvel eru sett mál á þessa þingmálaskrá sem eru síðan bara tekin til baka. Til hvers er hún þá? Af hverju er starfið ekki skipulagðara þannig að við vitum hvenær málin koma í þingið og vinnum þau bara eins og manneskjur? Það er það sem ég kalla eftir.

Virðulegur forseti. Ég hvet til þess að við í þingskapanefndinni höldum áfram okkar störfum.