144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli þingsins á þeim vanda sem fylgir okurlánastarfsemi smálánafyrirtækja. Það er skýrt í gildandi lögum um neytendalán að árleg hlutfallstala kostnaðar má ekki vera hærri en 50% að viðbættum stýrivöxtum Seðlabanka en ýmis viðbótarkostnaður smálánafyrirtækja við lánveitinguna hleypir hlutfallstölunni hins vegar upp í þúsundir prósenta. Þótt lántakendur greiði oftast þessi viðbótargjöld halda smálánafyrirtækin því fram að viðbótargjöldin séu valkvæð og því eigi lögboðið hámark ekki við. Standi lántakendur ekki í skilum við smálánafyrirtækin margfaldast kostnaðurinn enn frekar. Sakleysisleg smálán geta því fljótt margfaldast og orðið þungur baggi fyrir lántakandann og aðstandendur hans og jafnvel orðið að fjölskylduharmleik.

Neytendastofa hefur fylgt málinu eftir með úrskurðum, sektum og nú síðast dagsektum á smálánafyrirtækin. Þau hafa haldið áfram uppteknum hætti og virðast ætla að láta reyna á málið fyrir dómstólum. Oft eru lántakendur smálánafyrirtækja óreyndir í fjármálum, fólk sem á við erfiðleika að stríða eða ánetjað áfengi og fíkniefnum. Í 31. gr. samningalaga segir að ógilda megi samninga sem nýta sér bágindi, einfeldni eða fákunnáttu lántakanda í ábataskyni. Í 36. gr. sömu laga er svo fjallað um að ógilda megi samninga sem eru andstæðir góðri viðskiptavenju. Mér er ekki kunnugt um að reynt hafi á þessi mál fyrir dómstólum og hvort samningar smálánafyrirtækja standist þessi ákvæði. Líklega eru lántakarnir ekki í færum til að ráða sér lögmenn til að fylgja málum sínum eftir en mér finnst að mál af þessum toga ættu að njóta gjafsóknar.

Neytendastofa virðist ekki hafa eftirlit með samningalögunum. Það er atriði sem þarf að taka til skoðunar og mundi hugsanlega styrkja stöðu neytenda ef Neytendastofa mundi fylgja þessu eftir.

Að lokum vil ég aftur þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni fyrir að vekja athygli á málinu í þinginu. Efnahags- og viðskiptanefnd hefur fylgst grannt með þessum málum og hefur vinnu í gangi til að vinna (Forseti hringir.) að úrbótum og hefur einlægan áhuga á því.