144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp líkt og varaformaður velferðarnefndar til að ræða þann opna fund sem við héldum í morgun til að fagna afmæli barnasáttmálans. Varaformaður fór ágætlega yfir fundinn svo ég ætla ekki að endurtaka það sem hún sagði.

Við lögfestum hér á þinginu barnasáttmálann fyrir tveimur árum en hann er 25 ára gamall. Þetta var hluti af því að við héldum upp á það afmæli en jafnframt er að störfum í þinginu þingmannanefnd um málefni barna til að vekja athygli okkar hinna hér í þinginu og minna okkur stöðugt á innihald barnasáttmálans sem er í 54 greinum, sem eru allar jafn mikilvægar þó að í honum séu fjórar meginstoðir, sú um jafnræði allra barna og bann við mismunun, sú um að ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skuli byggðar á því sem er börnum fyrir bestu, 6. gr. um meðfæddan rétt sérhvers barns til lífs og þroska og 12. gr. um rétt barna til að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau.

Fundurinn í morgun var táknrænn fundur og mikilvægur fyrir afmæli barnasáttmálans en við þurfum að taka mark á börnum en ekki bara vera með þeim með táknrænum hætti á fagnaðarstundum. Þess vegna vil ég óska ég eftir því að þingmannanefndin sem stuðlar að því að efla vitund okkar um barnasáttmálann komi með tillögu að því hvernig þingið getur aukið aðkomu barna, hvernig þau geta komið sjónarmiðum sínum og skoðunum á framfæri við lagasetningu sem þau varðar. Þetta er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að þegar við ræðum um dvínandi þátttöku ungs fólks í kosningum berum við ábyrgð á því að fólk treysti því að skoðanir þess skipti máli í stjórnmálum og þetta væri mikilvægur liður í því.