144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Það má hafa mörg orð um peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, en hún verður seint sökuð um að vera djörf eða kjörkuð. Nú í morgun var gefið út að nefndin hefur ákveðið að meginvextir bankans verði áfram óbreyttir, þ.e. 4,5%. Helstu ástæður eru sagðar eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Efnahagshorfur eru að ýmsu leyti tvísýnni en oft áður. Lækkun eldsneytisverðs hefur haft mikil áhrif á verðlagsþróun bæði á Íslandi og á heimsvísu, en óvíst er hve langvinn þessi þróun verður.“

Það er rétt að taka fram að haft er eftir norskum fjárfesti í Viðskiptablaðinu í morgun að eldsneytisverð í heiminum geti orðið óbreytt næstu tíu ár svo það er ekki von til þess að menn treysti sér til að lækka stýrivexti á Íslandi ef það er hætta á því að olíuverð rjúki hér upp að tíu árum liðnum. Frægur bandarískur hagfræðingur, Jeffrey Sachs, segir að innan þriggja ára verði olíufatið aftur orðið 100 dollarar en við ákveðum stýrivexti mánaðarlega.

Það er líka talað um hættu á ólgu vegna þess að margir kjarasamningar eru opnir. Jú, rétt er það, að vissu leyti er áhætta í því, en þá spyr maður: Er góð latína að vera með mjög háa stýrivexti? Eru það góð skilaboð inn í kjarasamninga? Eru það góð skilaboð inn í það að hér eigi að vera fjárfesting, að hér eigi að vera aukinn hagvöxtur? Eru það góð skilaboð að hér séu enn hæstu stýrivextir á byggðu bóli — og verðbólgan er 0,8%? Það segir í forsendunum að það sé líklegt að hún verði 2% næstu tvö ár, en samt eiga stýrivextir að vera 4,5%.

Því miður, herra forseti, er ekki hægt að bera traust til starfa þessarar nefndar.