144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér hefur margt áhugavert komið fram. Ég er ánægður með að heyra og tek undir orð hv. þm. Sigurðar Arnar sem fór yfir mikilvægi þess að kanna hvort við ættum einhverja bótaskyldu þegar kemur að matsfyrirtækjunum. Eins og menn muna og sjá þegar þeir skoða skýrslur er hæpið að þau möt sem þau fyrirtæki komu með, möt sem voru ekki komin af himnum ofan heldur voru greiddar gríðarlegar fjárhæðir fyrir þau, standist skoðun svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Það voru ekki bara lífeyrissjóðirnir, virðulegi forseti, sem báru skaða af því heldur gerði svo sannarlega íslenska ríkið það líka ásamt auðvitað fjölda fólks.

Virðulegi forseti. Ég sá það í Morgunblaðinu í morgun að innflutningur á kjöti hefur aukist gríðarlega á Íslandi. Ég tel það fagnaðarefni og vona að við sjáum meira um viðskipti og verslun með landbúnaðarafurðir á Íslandi sem og annars staðar.

Annað vakti líka athygli mína sem við verðum að ræða og það snýr að gæðum vöru. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að neytendur séu upplýstir um hvað er í hverri vöru. Þá er ég að vísa í allra handa aukefni eins og sýklalyf og annað slíkt því að við vitum að það sama á við um landbúnaðarafurðir og annað, að þó að viðkomandi vara sé samkynja sé ekki þar með sagt að gæðin séu hin sömu. Við höfum verið svo lánsöm að ég held að Ísland og Noregur séu með minnst af aukefnum í hefðbundnum landbúnaðarvörum og kjöti af þeim löndum sem við berum okkur saman við. Það er mikilvægt að því sé haldið til haga. Það er mikilvægt út frá þessum aukna innflutningi að það sé upplýst um það eins um aðrar vörur hvað sé í (Forseti hringir.) henni. Eftir því sem ég best veit er til dæmis (Forseti hringir.) … selt miklu hærra verði (Forseti hringir.) í Noregi en …framleiðslan þar. Þannig ætti þetta auðvitað að vera hér líka.