144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

ungt fólk og fyrstu íbúðarkaup.

[15:40]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek hér upp málefni sem snúa að ungu fólki og möguleikum þess til að kaupa sér íbúð í fyrsta skipti. Ástæðan er að ég hef áhyggjur af því að það sé snúið mál fyrir ungt fólk að kaupa sér íbúð núna. Ég held að við höfum flotið sofandi að feigðarósi í þessum málaflokki á undanförnum árum og áratugum. Reyndar vakti ég fyrst athygli á því ásamt hagfræðingnum Magnúsi Árna Skúlasyni árið 1995 að það fyrirkomulag sem við höfum á Íslandi, sem gengur út á að við höfum hjálpað fólki til að kaupa sér húsnæði með því að koma með bætur á vexti, gengur út á að hvetja fólk til að skuldsetja sig. Það er hvatningin í kerfinu. Þetta er skuldhvetjandi kerfi. Það byggir í rauninni á þeirri einu forsendu að fasteignir haldi alltaf áfram að hækka. Ef fasteignaverð heldur alltaf áfram að hækka getur þetta hugsanlega gengið upp, en ef ekki verða vandræði.

Málið er þannig að helst hefur ekki mátt ræða það á undanförnum árum. Ég vek athygli á því sem kemur til dæmis fram í íbúðalánaskýrslunni að ég tók þetta upp — ég tók fyrst mál upp varðandi þessa hluti 1995 eins og ég nefndi en 2004 áttum við hér umræðu um 90% lánin og þá vakti ég athygli á hinu augljósa sem var einfaldlega það — og við í meiri hluta hv. félagsmálanefndar þá, ég flutti þá nefndarálit, tókum dæmi sérstaklega frá Noregi og annars staðar af Norðurlöndunum, að þau hefðu komið sér í þau vandræði að fasteignaverðið hætti að hækka og þá kom það illa niður á fólkinu. Það var bankakreppan þar. Við vorum meðvitað og ómeðvitað með þetta fyrirkomulag. Það er skemmst frá því að segja að viðbrögðin sem ég fékk í þessum sal, sérstaklega frá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar, voru háðsglósur og mönnum þótti ekki mikið til þessa málflutnings koma. Var það kannski lýsandi fyrir umræðuna á þeim tíma, en því miður hafði ég rétt fyrir mér um afleiðingarnar sem allir þekkja. Við breytum því ekki núna, virðulegi forseti, en þá er það næsta spurning: Hvað ætlum við að gera til að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur? Þá segir sig alveg sjálft að við þurfum að breyta um stefnu. Við getum ekki haft fyrirkomulag sem hvetur fólk til að skulda. Við verðum að nota þau tæki sem við höfum til að hjálpa fólki til að eignast húsnæði. Húsnæðissparnaðarleiðin sem núna er komin af stað með séreignarleiðinni sem hæstv. ríkisstjórn, a.m.k. meiri hluti hv. Alþingis, hefur samþykkt er liður í því. En betur má ef duga skal. Aðrir þættir vega mikið þegar kemur að hlutum eins og fasteignaverði og þetta kemur verst niður á þeim sem eru að kaupa í fyrsta skipti. Ef við erum með hátt lóðaverð, það er búið að hækka um hundruð prósenta frá 2005, ef við erum með mjög mikil gjöld á fasteignum, ef við erum með byggingarreglugerð sem gerir mönnum mjög erfitt fyrir að byggja litlar og ódýrar íbúðir erum við að gera ungu fólki erfitt fyrir að kaupa sína fyrstu íbúð. Ef menn líta á reikningsdæmið er það illmögulegt nema hugsanlega gegnum húsnæðissparnaðarleiðina.

Við þurfum að fara yfir þetta, ræða málefnalega og koma í veg fyrir að við sjáum sömu mistökin gerast aftur en miðað við þær upplýsingar sem ég hef erum við á nákvæmlega sömu leið og við vorum áður. Þau lán sem allir eru sammála um að séu það versta, þau eru dýrust og gera það að verkum að eignamyndun verður mjög hæg, þ.e. 40% verðtryggð lán, miðað við þær bestu upplýsingar sem ég hef, og ég ætla að fylgja því eftir með fyrirspurnum eftir þessa umræðu til hæstv. félagsmálaráðherra, eru það þau lán sem eru algengust, 40 ára verðtryggð lán sem við erum öll sammála um að við viljum ekki sjá.

Virðulegi forseti. Ég get ekki séð annað núna en að við séum að fara sömu leið og kom okkur í þau vandræði á fasteignamarkaði sem við þekkjum. Einn þátturinn er sá líka að hið opinbera á mjög margar íbúðir, þúsundir (Forseti hringir.) íbúða … og það hjálpar ekki fólki sem vill kaupa (Forseti hringir.) sér húsnæði.