144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

ungt fólk og fyrstu íbúðarkaup.

[15:56]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda umræðuna, hún er sannarlega þörf. Eins og hv. þingmaður segir er sannarlega snúið mál fyrir ungt fólk að kaupa sér sína fyrstu íbúð. Kannski hefur það helst gerst á síðustu tveimur árum að það hefur þrengt mjög að högum ungs fólks á húsnæðismarkaði. Leiguverð hefur hækkað og ekkert bendir til að því sé að linna. Fyrstu íbúðarkaup ungs fólks tengjast auðvitað leigumarkaðnum. Það er erfitt að safna sér fyrir útborgun á meðan maður leigir á leigumarkaðnum eins og hann er.

Þó að við séum að ræða hérna íbúðarkaup vil ég vara við því að séreignarstefnunni sé gert of hátt undir höfði eða talað um hana sem hinn eina valkost. Það eru auðvitað aðrir kostir eins og leigumarkaðurinn og við eigum að skoða hann betur eins og aðrar þjóðir gera.

Við settum ný lög um neytendalán fyrir ári. Þau eru mjög mikilvæg en það er staðreynd að ungt fólk á nú erfiðara um vik að kaupa sína fyrstu íbúð. Það er einfaldlega erfiðara að fara í gegnum greiðslumat þó að maður eigi 80% upp í útborgun af því að maður þarf einfaldlega að hafa hærri tekjur, ramminn var þrengdur til þess að fólk stæði frekar í skilum. Það er vel skiljanlegt en þetta er erfiðara.

Hvað er til ráða? Til að ungt fólk geti safnað sér fyrir íbúð er grundvallaratriðið að styrkja leigumarkaðinn. Það er vitað og við bíðum eftir frumvarpi húsnæðismálaráðherra um húsnæðisbætur. Það getur verið skynsamlegt að setja á fót einhvers konar húsnæðissparnaðarkerfi o.s.frv. Ég verð þó að segja að mér þykir heldur betur furðulegt að við sitjum hér og ræðum það hvernig við eigum að vinda ofan af því að húsnæðisverð hækki og ungt fólk hefur ekki roð í (Forseti hringir.) markaðinn á meðan meiri hlutinn á þingi ákveður að deila peningum (Forseti hringir.) í skuldaleiðréttingu sem hefur það í för með sér að allir fá forskot nema ungt fólk vegna þess að það hafði ekki verðtryggt húsnæðislán.