144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

ungt fólk og fyrstu íbúðarkaup.

[16:00]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu kann að hafa tiltölulega einfalt svar. Hvernig fer ungt fólk að því að kaupa sér íbúð? Raunbreytistærðir í þessu máli eru tiltölulega fáar, það er fasteignaverð, það er aflahæfi kaupanda og síðan eru það greiðslukjör. Í þessu efni hefur það gerst á undanförnum árum að hér varð verðbóla á fasteignamarkaði og hún er enn þrátt fyrir að úr hafi dregið. Hún er kannski að fara af stað aftur. Ýmis ráð hafa verið reynd, svo sem vaxtabætur og hér er talað um leigubætur. Síðast nefndi hæstv. ráðherra að hugsanlega þyrfti stofnstyrki. Vaxtabætur eru í rauninni hvati til skuldsetningar á sama tíma og hvers kyns sparnaður hefur verið skattlagður þannig að það er lítill hvati til sparnaðar nema í þeim lagabreytingum sem hér fóru í gegn í vor þar sem fólki er heimilað að veita ákveðinn hluta af séreignarsparnaði sínum í fasteignakaup. Það kann að auka getu fólks til að kaupa.

Eiginfjárkrafa er dálítið undarlegt fyrirbrigði vegna þess að tekjur einstaklingsins eru lítt metnar í aflahæfinu. Hér er tæpast hægt að fara af stað og finna enn eina töfralausn. Ég hvet til þess að menn hafi vara á og fari ekki í aðgerðir sem leiða hreinlega til þess að fasteignaverð hækki enn, t.d. með skuldhvetjandi aðgerðum, enn frekari vaxtabótum. Húsaleigustyrkir kunna að leiða ósköp einfaldlega til þess að húsaleiga hækki. (Forseti hringir.) Og til hvers væri þá af stað farið?