144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

ungt fólk og fyrstu íbúðarkaup.

[16:03]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu þeirra sem eru að reyna að kaupa sína fyrstu fasteign og þeirra sem eru að reyna að koma undir sig fótunum á ný á húsnæðismarkaði, t.d. þeirra sem misst hafa eignir og eru að reyna að byrja að nýju. Ástæðan er hækkað fasteignaverð. Við verðum samt að horfa til þess að fólk verður að hafa raunhæft val á húsnæðismarkaði. Í dag kjósa margir að búa í leiguhúsnæði, vilja ekki skuldsetja sig með miklum húsnæðisskuldum en óska samt eftir öryggi á húsnæðismarkaði. Þess vegna er mjög mikilvægt að frumvörp er varða húsnæðismarkaðinn og eru núna vonandi á lokametrunum í vinnslu í velferðarráðuneytinu komi sem fyrst inn í þingið.

Hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra Eygló Harðardóttir rakti ágætlega tillögurnar í þeim frumvörpum. Frumvörpin taka á mjög mikilvægum málum, þ.e. að auka framboð á leiguhúsnæði þar sem fólk getur búið við öryggi á húsnæðismarkaði. Það eru tillögur að því að nota ákveðnar ívilnunar- og hvatahugmyndir til að ná húsnæði úr skammtímaleigu til ferðamanna inn á markað til fólks sem vill búa við langtímaleigu. Mér líst mjög vel á það stofnstyrkjakerfi sem er til umræðu í þessum frumvörpum, þ.e. að taka upp stofnstyrki í stað þess að niðurgreiða vexti til húsnæðissamvinnufélaga. Áætlað er að það geti lækkað verð á leigu um 18–20%. Það er mikilvægt fyrir þá sem eru á leigumarkaði og vilja fara út í að kaupa húsnæði að við náum leiguverði niður. Þess vegna verðum við að horfa vel á allar slíkar hugmyndir.

Auk þess er mjög mikilvægt frumvarp er tekur á því að jafna stuðning á milli kerfa, milli vaxtabótakerfisins og húsaleigukerfisins í nýtt kerfi, húsnæðisbætur. Ég tel að það gæti orðið mörgum til bóta.