144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

ungt fólk og fyrstu íbúðarkaup.

[16:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér alveg ágætt að einn hv. stjórnarliði spyrji annan stjórnarliða, þ.e. hæstv. ráðherra eigin ríkisstjórnar, um það hvernig í ósköpunum ungt fólk eigi að fara að því að eignast íbúð í dag. Það hefur sennilega aldrei verið erfiðara. En vel að merkja, „að eignast íbúð“ er grunntónn umræðunnar. Og spurningin er þá hvort lausnarorðið sé einhvers konar sparnaðarform með skattalegu hagræði.

Gallinn er sá að þessi þrönga nálgun horfir auðvitað fram hjá því að aðstæður margra eru þannig að menn geta mjög illa klofið slíkt yfir höfuð. Það er veruleikinn vegna erfiðra aðstæðna, lágra launa og jafnvel af félagslegum eða byggðalegum ástæðum, að sú lausn hentar einfaldlega ekki miklum fjölda í húsnæðismálum, a.m.k. ekki á fyrstu árum búskapar. Þetta horfir líka fram hjá þeim sem einfaldlega vilja síður fara þessa leið, vilja búa í annars konar formi, vilja leigja eða nota búseturéttarhúsnæðis- eða samvinnufélagaúrlausnir.

Slík blind einkaeignarstefna, án þess að bjóða félagsleg úrræði í húsnæðismálum til handa þeim sem þurfa á slíkum stuðningi að halda og fjölbreytt úrræði á öðrum forsendum fyrir þá sem einfaldlega vilja sjálfir frekar leigja, a.m.k. á einhverjum hluta ævinnar, gleymist og hverfur. Ef menn beita sérstökum skattalegum hvötum til að ýta undir séreignarstefnuna er það pólitík og ekkert annað.

Ég sé til dæmis ekki að lausnin sé fólgin í því að ríki og sveitarfélög afsali sér stórum tekjum langt inn í framtíðina með því að gefa eftir skattfrjálsan séreignarsparnað inn í þetta (Forseti hringir.) sem hefur áhrif á lífeyriskerfið o.s.frv. Eins og ég segi, (Forseti hringir.) herra forseti, það er ágætt að stjórnarliðar ræði (Forseti hringir.) þetta sín á milli, en það gerist (Forseti hringir.) ósköp lítið meira en það.