144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

ungt fólk og fyrstu íbúðarkaup.

[16:10]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa mikilvægu umræðu. Margt gott hefur komið fram hérna. Það hefur sennilega aldrei verið mikilvægara en núna að við bjóðum ungu fólki upp á einhvers konar framtíðarsýn á það hvernig það geti komið sér þaki yfir höfuðið. Ég er sammála þeim sem hafa talað á undan um að þak yfir höfuðið þarf ekki endilega að vera séreignarþak, það getur verið leiguþak á leigumarkaði sem er öruggur. Unga fólkið í dag á nefnilega mjög auðvelt með framtíðarsýn sem takmarkast ekki við útlínur landsins. Maður heyrir það æ meira á ungu fólki að hugmyndin um að búa erlendis er fullkomlega eðlileg. Við erum að keppa við útlönd um unga fólkið.

Það hefur verið ákveðin tíska í einhverja áratugi á Íslandi að styrkja stöðu þeirra sem fyrir eru og okkur sem eldri erum á kostnað unga fólksins, reka kerfin okkar og efnahaginn á kostnað komandi kynslóða. Það gengur upp á meðan komandi kynslóðir hafa ekki annan kost en að taka við skuldunum og troða marvaðann, en þegar þær hafa möguleika til þess að koma sér hreinlega í burtu frá vitleysingunum erum við í vanda stödd.

Þegar ég var ungur upplifði ég að fólk í kringum mig var oft mjög reitt og því var heitt í hamsi í kringum þessa upplifun. Í dag upplifi ég að þessum sama hópi sem orðinn er miðaldra líkar ágætlega þegar við mokum milljörðum í svokallaðar skuldaleiðréttingar til þeirra sem eiga húsnæði. Þá mismunum við gagnvart þeim sem eiga eftir að eignast húsnæði eða komast inn á húsnæðismarkaðinn, (Forseti hringir.) fyrir utan það að við erum enn og aftur að byggja undir bólu (Forseti hringir.) á húsnæðisverði sem gerir kaupendum enn erfiðara að komast inn. Þetta er vítahringur sem við verðum að brjóta.