144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

ungt fólk og fyrstu íbúðarkaup.

[16:12]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum fyrir þátttökuna. Mér fannst hún að langstærstum hluta mjög málefnaleg og góð. Þó að ég sé ekki sammála öllu því sem hv. þm. Árni Páll Árnason sagði var ég sérstaklega ánægður með að heyra annan tón þar en hefur oft komið áður frá Samfylkingunni.

Ég er hjartanlega sammála hæstv. ráðherra sem segir að séreign og leiga sé hvor sín hliðin á sama peningnum. Það verður alltaf einhver að eiga húsnæðið. Það segir sig sjálft að ef húsnæði er ódýrara og auðveldara að eignast það lækkar líka leigan. Það er ótrúlegt að hlusta á þessar pólitísku skotgrafir sem menn detta alltaf í og segja að ef einhver leið er farin sé hún ekki fyrir alla og þar af leiðandi ekki hægt að fara hana.

Menn tala um að moka milljörðum í leiðréttingar á húsnæðislánum. Af hverju talar enginn um að moka milljörðum í vaxtabætur? Frá 2005 eru komnir nærri 100 milljarðar í það. Er ekki verið að moka milljörðum í einhvern hóp? Er það ekki alveg ómögulegt? Ég hef ekki heyrt neinn í stjórnarandstöðunni hv. þingmann segja það. Aldrei. Er það mokstur á peningum sem er í lagi? Hvað með 60 milljarða í Íbúðalánasjóð? Er það ekki mokstur á peningum í kerfi sem gengur ekki upp? Er það allt í lagi? (Gripið fram í: Nei.) Ég hef ekki heyrt einn einasta hv. stjórnarandstöðuþingmann ræða það. Þegar þeir voru í stjórn á síðasta kjörtímabili var þetta blásið á í hvert einasta skipti sem þetta mál var tekið upp og tók ég það oft upp.

Virðulegi forseti. Það eru mörg sóknarfæri í þessu. Við þurfum að skoða ýmsa þætti. Ég ætlaði að lesa byggingarreglugerðina en hún er 174 síður. Það er útilokað annað en að það sé hægt að einfalda hana. Það er útilokað annað en að það sé hægt að ganga þannig fram að það sé auðveldara og ódýrara að kaupa sér húsnæði.

Eitt er lóðaframboð. Ég hef séð eitt bæjarfélag ganga hressilega fram í því sem er vel, Kópavog, og þá er ég að tala um höfuðborgarsvæðið. Ég vonast til þess að önnur geri slíkt hið sama.

Ég er ánægður með viðbrögð hæstv. ráðherra og flestra hv. þingmanna. Mér fannst þetta málefnalegt og gott og vonandi gefur þetta tóninn til þess að við getum breytt hér um stefnu, hjálpað fólki við að eignast íbúð og þar af leiðandi (Forseti hringir.) lækkað leigu, hjálpað fólki við að leigja. (Forseti hringir.) Þá er takmarkinu náð.