144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[16:17]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að leggja nokkur orð í belg í umræðuna um frumvarp um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, sem snýr að því að gefa sveitarfélögunum lögheimildir til að skilyrða fjárhagsaðstoð, skjóta lagastoð undir það sem mér skilst að hafi í einhverjum mæli verið praktíserað án slíkrar lagastoðar. Þetta er ákaflega vandasamt mál og þarf að ræðast og skoðast í góðri yfirvegun.

Ég verð að segja eins og er að það er með svolitla sorg í hjarta sem maður stendur frammi fyrir því að málið er lagt til með þessum hætti. Ég hefði svo miklu, miklu frekar viljað að menn legðu á borð tillögur um að ná sömu markmiðum og ég gef mér að séu hér á bak við en með öðrum aðferðum, einhverri jákvæðri nálgun í staðinn fyrir þessa neikvæðu nálgun. Þannig mætti hugsa sér að grunnfélagsaðstoð, sem er allra lægsta öryggisnetið undir afkomu fólks í samfélaginu, væri þannig útfærð að hún yrði aldrei skert. Hins vegar byði kerfið upp á hvetjandi ráðstafanir og úrræði sem væru til þess hugsuð að reyna að ná sömu markmiðum. Þannig mætti til dæmis hugsa sér að menn fengju uppbót á grunnframfærslufjárhæð gegn því að þeir væru í viðurkenndri endurhæfingu eða þjálfun eða sæktu þau virkniúrræði sem meiningin er að ýta mönnum inn í með þessari neikvæðu nálgun, þ.e. með því að hafa svipuna á lofti yfir þeim að þeir missi bætur sínar ef þeir ekki hlýða því kalli.

Nú er að sjálfsögðu verið að tala hér um þá sem eru vinnufærir en þó lentir í þessari stöðu, væntanlega að undangengnu því að hafa fullnýtt rétt sinn til atvinnuleysisbóta í mörgum tilvikum. Í öðrum tilvikum geta þetta verið aðilar sem aldrei hafa komist inn á vinnumarkaðinn. En athygli vekur orðalag eins og það að óheimilt sé að skilyrða fjárhagsaðstoð, eins og segir í 2. gr., til annars en umsækjanda sem metinn er vinnufær að hluta eða öllu leyti. Þarna erum við strax komin í ákveðinn vanda. Hvað er það að vera vinnufær að hluta og hvernig eru aðstæður þeirra gagnvart því að leita starfa eða eftir atvikum jafnvel að taka þátt í þeim úrræðum sem þeim er gert skylt að gera eða missa bætur sínar ella?

Nú efast ég ekkert um að margt það ágæta sveitarstjórnarfólk og fólk í ráðuneytinu og annars staðar sem hefur unnið að þessu máli — og þetta er ekkert nýtt mál, það er vel þekkt frá síðasta kjörtímabili þegar sveitarfélög sóttu á um þetta — að það er jákvæð hugsun að baki. Hún er sú að reyna að aðstoða þá sem eru í þessari stöðu eins og mögulegt er til að halda við færni sinni og virkni eða byggja hana upp og komast út úr þeirri hörmulegu stöðu sem það er að þurfa að fá framfærslu beint frá sínu sveitarfélagi. Það breytir ekki hinu, þótt við séum sammála um að markmiðið sé ágætt og hugsun þeirra sem að þessu vilja stefna sé góð, að við verðum að geta rætt aðferðirnar áreitnislaust. Ég á satt best að segja, herra forseti, óskaplega erfitt með þessa neikvæðu aðferð, þessa skerðingaraðferð.

Það er svo margt í þessu sem er vandasamt, til dæmis vinnufærnismatið sjálft. Það er ekki alltaf einfalt að finna út úr því hvort einstaklingur sé vinnufær eða vinnufær að hluta og þá í hvers konar störf, virkniúrræði eða það sem sett verður upp og segja: Ef þú ferð ekki á þetta námskeið eða í þessa þjálfun þá missirðu bætur. Það er nú svona og svona. Ég þekki menn sem á grundvelli sams konar ákvæða í reglum um atvinnuleysisbætur gáfust upp og neituðu að fara á þriðja sams konar námskeiðið. Þeim fannst ekki boðlegt að þeim væri gert kannski tvisvar eða þrisvar á þriggja ára tímabili eða fjögurra að fara að endurtaka eitthvað til málamynda sem þeim fannst ekki hafa skilað þeim miklu.

Síðan erum við mjög gjarnan að tala hér um þann hóp sem einna veikast stendur af öllum í okkar samfélagi. Ég held að það sé nokkuð ljóst. Þetta eru þeir sem eru komnir út af atvinnuleysisbótum eða hafa aldrei farið inn á vinnumarkaðinn en hafa ekki heldur fengið endanlegan úrskurð um að þeir séu óvinnufærir, öryrkjar o.s.frv. Þessi vandamál geta verið af mörgum toga og þær hamlanir og hindranir sem valda því m.a. að viðkomandi hefur kannski á undangengnum missirum gefist upp á atvinnuleitinni. Það geta verið mjög ósýnilegar hindranir, ekkert sem menn bera endilega utan á sér eða sem sést í stuttu spjalli, viðtali, jafnvel þótt um fagfólk sé að ræða, en eru innri vandamál sem menn glíma við sem eru jafnvel afar viðkvæm að opinbera. Þar má auðvitað nefna þá sem glíma við ýmis konar geðræn vandamál eða aðra slíka erfiðleika og hamlanir sem ekki eru alltaf mjög sýnilegar á yfirborði. Menn verða líka að hafa í huga að þetta snýst um lægsta öryggisnetið í samfélaginu og ég geri stóran greinarmun á því og atvinnuleysisbótafyrirkomulaginu og þeim aðgerðum sem þar er reynt að beita til að halda fólki virku og á tánum og reyna að aðstoða að við að komast aftur út í atvinnulífið. Það er fólk sem hefur verið á vinnumarkaði fyrir ekki löngu síðan og aðstæður talsvert ólíkar þeim sem ýmsir í þessum hópi glíma við.

Menn eru alltaf að reyna að finna upp sama hjólið með einum eða öðrum hætti á mismunandi tímum og í mismunandi löndum og þetta mál er ekkert nýtt af nálinni, kannski frekar sjaldgæft þegar í hlut á síðasta grunnaðstoðin af þessu tagi í samfélögunum. Í einhverjum mæli hafa menn þó farið út á þessa braut í Danmörku eða annars staðar og sums staðar snúið frá henni af því að hún hefur ekki gefist vel. Ég velti fyrir mér hvort ekki væri vænlegri nálgun að ríki og sveitarfélög með aðilum vinnumarkaðarins, hvað varðar t.d. atvinnuleitendur og fyrirkomulag á þeirra málum, ynnu þessa hluti betur saman. Ég held að það sé ekki alveg í lagi að ríkisstjórnin og meiri hlutinn hér komi með þá ákvörðun eins og þruma úr heiðskíru lofti að stytta atvinnuleysisbótatímann um hálft ár rétt fyrir jólin. Sveitarfélögin búa sig undir að holskefla lendi á þeim. Sem betur fer virðist hún hafa orðið minni en menn óttuðust, en engu að síður er þetta úrræðið sem tekur við ef ekki hefur úr ræst. Þá er ekkert á annað að vísa en framfærslu frá sveitarfélaginu. Ætti þetta ekki að spila betur saman? Ætti þetta kannski að vera einhvers konar eitt samræmt kerfi sem ríki og sveitarfélög og aðilar vinnumarkaðarins stæðu sameiginlega á bak við? Að sjálfsögðu er hægt að skipta kostnaðinum með sambærilegum hætti og í dag, að atvinnuleysisbótaréttur sé tvö og hálft eða þrjú ár og síðan taki við annað fyrirkomulag hvað kostnað varðar, en það sé ekki gerður þessi mikli greinarmunur. Það er dálítið annað held ég fyrir flesta að segja það í heita pottinum eða hvar sem er að þeir séu atvinnuleitendur, þeir hafi misst vinnuna fyrir nokkru síðan og séu að leita sér að vinnu heldur en að þurfa að gera uppskátt um að þeir séu þannig komnir að þeir þurfi að fá framfærslu sína beint frá sveitarfélaginu. Það þyrftu ekki að vera slík landamæri ef þetta væri eitt samræmt kerfi sem héldi utan um fólk allt frá því að það lendir í því að missa vinnuna eða verður utan vinnumarkaðar vegna einhverja áfalla og áfram upp í gegnum lífið, því að á einhverju þurfa menn að lifa. Það er alveg á hreinu.

Við ætlumst til þess að allir í okkar landi búi við sæmilega mannsæmandi kjör, það sé enginn beinlínis niðurlægður og þurfi að missa reisn sína vegna þess hvernig að honum er búið í velferðarsamfélagi okkar. Mér finnst þetta vera dálítið kaldranalegt. Það held ég að höfundar frumvarpsins viðurkenni auðvitað með því að það má ekki skerða framfærsluna nema um tvo mánuði í senn og aldrei nema um helming. Það er einhver vottur af viðurkenningu á því að það er ekki alveg hægt að setja fólk út á guð og gaddinn, en bíðum við. Hvað er verið að segja með því? Jú, einhverjum er þá ætlað að búa við það að hafa hálfa framfærslu eins og hún er í dag frá sínu sveitarfélagi, kannski tvo mánuði í senn aftur og aftur. Hvers konar líf er það? Það er ekki hægt. Það verður að finna einhverjar aðrar leiðir en þetta eða hvernig ætla menn að standa frammi fyrir því fólki sem fær þann dóm að þessi rausnarlega aðstoð sem er auðvitað mjög lág, stenst náttúrlega engan samanburð við viðurkennd viðmið um framfærslukostnað í samfélaginu, verði þannig að næstu tvo mánuðina færð þú helming, góði minn, ef engum öðrum úrræðum er til að dreifa. Hvað er þá eftir? Eru það þá ekki bara matargjafir, að leita á náðir hjálparstofnana og félagasamtaka sem verða að búa bilið? Og þá spyr ég, herra forseti, er velferðarkerfið á Íslandi orðið svo aumt? Er það þannig að það sé ekkert nema bara matargjafir og súpueldhús sem eigi að bíða hluta hópsins sem þó hefur snúið sér til síns sveitarfélags vegna þess að öll önnur úrræði eru tæmd? Mér finnst þetta ómögulegt. Það hlýtur að vera hægt að prófa að minnsta kosti að nálgast þetta á meira hvetjandi hátt. Það þarf að halda utan um fólk sem lendir í slíkri stöðu. Það verður að leggja í það mannafla og fjármagn að reyna að aðstoða fólkið undir jákvæðum formerkjum við að vinna úr sínum málum og fá sína stöðu og getu og möguleika á hreint í okkar samfélagi. Þetta er oftast eitthvert millibilsástand. Ég held að það sé kannski ekki við því að búast að þetta standi óskaplega lengi hjá hverjum og einum. Það væri þá eitthvað annað og meira á ferðinni en tímabundnir erfiðleikar. Ég á voðalega bágt með að hugsa mér það hvernig þetta verður ef frumvarpið verður að lögum. Ég spyr mig að því: Hvernig ætlum við að forsvara það ástand sem verður þegar einhver hluti hópsins verður kominn í þá stöðu að vera sviptur greiðslunum eða helmingaðar hjá honum þessar lágu greiðslur svo mánuðum skiptir eða tvo mánuði í senn með nokkurra mánaða millibili eða jafnvel allt að hálft ár? Það segir hér í einni málsgrein að ef sett hafa verið skilyrði um virka atvinnuleit fyrir fjárhagsaðstoð vegna sérstakra aðstæðna sé sveitarstjórn heimilt að fella hana niður í allt að sex mánuði í senn sé skilyrðum 1. mgr. ekki lengur fullnægt.

Herra forseti. Þetta eru mínar aðalathugasemdir við frumvarpið. Ég held að hugsunin sem að baki liggur, að hvetja og örva fólk til að reyna að vinna úr sinni stöðu, sé auðvitað rétt. Það er það sem þarf að gera og menn hefðu mátt gera betur í á Íslandi á ýmsan hátt. Það hefur þó margt horft til betri vegar í þeim efnum. Ég tel að í aðalatriðum hafi verið glímt við atvinnuleysi með árangursríkum hætti á síðasta kjörtímabili hvað þennan þátt varðar með því að gera mikið til að reyna að aðstoða fólk með virkniaðgerðum og greiða götu þess til náms o.s.frv. Það hafi skilað miklum árangri og atvinnuleysið hafi valdið okkur minna tjóni en ella vegna þess að menn voru sér mjög meðvitaðir um það. Liður í því var að lengja atvinnuleysisbótatímann í fjögur ár sem tvímælalaust var rétt. Að sama skapi held ég að sé misráðið eða ótímabært, of snemmt, að stytta hann núna niður í tvö og hálft ár. Síðan hefði ég helst viljað að þetta ynni einhvern veginn betur og öðruvísi saman. Það væru ekki þessi skil þarna á milli og byggðir væru upp jákvæðir hvatar í kerfinu í staðinn fyrir neikvæða. Þetta er um það bil síðasti hópurinn í samfélaginu sem mér finnst eiga að brúka sviptingar og skerðingar gagnvart til að reyna að ná fram jákvæðum markmiðum. Það er eiginlega bara þannig. Mér detta eiginlega engir aðrir í hug þar sem það á síður við en a.m.k. hluta þessa hóps. Auðvitað er hann ekki einsleitur frekar en nokkur annar hópur en þarna eru á ferðinni margir þeir sem hvað erfiðast eiga í samfélagi okkar.