144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[16:33]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Maður veltir fyrir sér þegar svona frumvarp er samið hvort þeir sem koma með þessar tillögur að lagabreytingum hafi nokkru sinni upplifað hvernig það er að eiga ekki fyrir mat, hvernig það er að reyna að láta endana ná saman út mánuðinn. Ég þekki marga sem eru eða hafa verið í þeirri stöðu um hver einustu mánaðamót að borga allt sem þeir skulda og eiga svo ekkert eftir, og velta síðan fyrir sér hvernig þeir eigi að lifa af mánuðinn. Þá er oft farið til mæðrastyrksnefndar eða Hjálparstarfs kirkjunnar eða til allra þessara ólíku sjóða eða stofnana sem gefa fólki misgóðan mat í poka. Það má ekkert út af bregða.

Þeir sem hafa búið við langtímaatvinnuleysi eiga ekki neitt og þeir mega ekki við því að skorin sé af þeim skyldan, framfærsluskyldan, hún tekin af þeim. Ég held að þeir sem mælast til þess að fólk fari og fái aðstoð, fari bara og fái sér vinnu átti sig ekki á því að vinnan hentar oft ekki. Eins og hefur komið fram áður hjá mér í andsvörum er það oft þannig að þegar farið er fram á að fólk taki atvinnuúrræði þá henta þau alls ekki. Vaktavinna hentar ekki öllum. Hún hentar til dæmis ekki einstæðum foreldrum, og vinna sem er langt í burtu, ef viðkomandi hefur ekki aðgang að bifreið, hentar kannski ekki á kvöldin eða næturnar af því að þá eru ekki almenningssamgöngur í boði. Ég velti því fyrir mér hvort tekið sé tillit til slíks í þessum tillögum, ég held ekki.

Það sem mér finnst hreinlega blasa við og þarf að taka tillit til og kom fram í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar áðan, er að það vantar samfellu á milli ólíkra stofnana og félagslegra stiga þegar kemur að því að hlúa að þeim sem verst settir eru. Það vill nú þannig til að fæstir óska sér atvinnuleysis og mjög margir sem eru á atvinnuleysisskrá í dag eða voru núna þvingaðir í það úrræði að fá framfærslu hjá sveitarfélagi, hafa verið mjög duglegir að sækja um vinnu, því að það er hreinlega skylda að vera virkur í að sækja um vinnu ef maður er á atvinnuleysisbótum eða þiggur laun frá Vinnumálastofnun. Fólk er því kannski búið að sækja um viðstöðulaust og fær ekki neitt. Síðan getur það brugðið svo við að sveitarfélagið vilji að manneskja sem er kannski komin af léttasta skeiði fari að vinna erfiðisvinnu eða að mjög menntuð manneskja fari að læra að keyra traktor. Ég hef heyrt um mjög mörg slík dæmi. Mér finnst þessar tillögur ekki endurspegla að kerfið geti gert mistök eða að þeir sem eru handhafar kerfisins geti gert mistök. Manneskja í þeirri stöðu sem ég nefndi getur þá staðið frammi fyrir því að það á að taka af henni hálfar bætur, sem er mikill peningur fyrir þann sem á ekki neitt, í nærri hálft ár. Hvað er verið að reyna að gera við fólk? Taka frá því lífsviljann, er það málið? Þetta er ekki jákvæður hvati, það gerir fólk þunglyndara þegar það hefur stöðugar áhyggjur af lífsafkomu sinni og börnum sínum eða öðrum þeim sem eru á heimili með viðkomandi ef svo ber undir.

Ég hef miklar áhyggjur af þessu og ég get ekki stutt frumvarpið, ekki á neinn hátt, af því að hér vantar algjörlega heildræna samantekt á rétti fólks til framfærslu og heildrænum úrræðum, því er ekki fyrir að fara. Þarna er í raun og veru bara verið að velta ábyrgð yfir á þann samfélagshóp sem er í mjög viðkvæmri stöðu, velta yfir á hann ábyrgð á ákaflega umdeildri, ákaflega ósanngjarnri og ófaglegri ákvörðun um að skerða réttindi til atvinnuleysisbóta um hálft ár með tíu daga fyrirvara. Það var skammarlegur gjörningur og ég skil ekki hvernig það fólk hér á Alþingi sem tók þátt í að samþykkja þann viðurstyggilega gjörning getur sofið á næturnar, það er svo skammarlegt. Maður mundi ekki bjóða neinum öðrum samfélagshópi upp á slíkan gjörning nema kannski öryrkjum eða gamla fólkinu, sem á erfitt með að berjast fyrir réttindum sínum.

Það sem ég óska eftir að verði gert í nefndinni sem fær málið inn á sitt borð er að taka saman rétt til framfærslu og skerðingar á þeim rétti, því að skerðingarnar eru töluvert miklar, sérstaklega þegar fólk er komið á framfærslu hjá sveitarfélögum. Þar er mjög erfitt að sækja grunnréttindi sín til framfærslu og með ólíkindum hvernig það er spyrt saman við það ef fólk á t.d. húsnæði eða er gift. Ég hefði haldið að framfærslurétturinn hlyti að lúta að manns eigin persónu. Og upphæðirnar sem er miðað við eru svo lágar að það er skammarlegt. Þetta er svipað og með þær upphæðir sem miðað er við hjá öryrkjum, hvenær byrjað er að skera af fólki, þær eru skammarlegar. Segjum að manneskja, þótt að hún sé bara í hálfri vinnu, hálfsdagsvinnu, með meðaltekjur, ætli að sækja um stuðning hjá sveitarfélagi. Þá er svarið oft: Nei, þú ert með allt of miklar tekjur, þú ert búin að hafa svo góðar tekjur síðasta hálfa árið að þú átt ekki rétt á neinum stuðningi. Þannig er þetta. Ég held að þeir þingmenn sem mæla með þessu máli ættu að kynna sér hvernig það er að þurfa að fara og biðja um stuðning og aðstoð við framfærslu. Það eru þung skref og þetta gerir enginn að gamni sínu. Þeir aðilar sem oft er talað um að séu bótasvikarar eða framfærslusvikarar eða bara komnir á spenann, eru ekki margir. Mér finnst svívirðilegt að taka upp hér amerískt kerfi sem er á þann veg, ég heyrði einmitt umfjöllun um það á BBC fyrir nokkrum mánuðum síðan, að það þótti gasalega sniðugt að taka allar bætur af fólki því að það yrði svo duglegt að fá sér vinnu ef það hefði enga leið til þess að ná í björg í bú. En oft er það fólkið sem getur ekki borgað fyrir nauðsynlega framfærslu og hefur hvorki heilsu né getu eða þarf að skilja börnin sín ein eftir heima, sem fer í örvæntingu í starfsumhverfi sem það á ekki að vera í.

Ég velti því fyrir mér þegar maður sér svona tillögur, sem kannski líta frekar sakleysislega út á pappír og virðast kannski vera ágætishugmyndir þegar fólk fær þær inni í ráðuneyti, hvort sú manneskja, t.d. hæstv. velferðarráðherra, sé tilbúin til þess að búa við þessar aðstæður í hálft ár, að búa við þessa ógn og þennan skugga án þess að hafa kannski neinn stuðning. Fólk sem komið er í slíkar aðstæður fær oft ekki vinnu þrátt fyrir að sækja ítrekað um. Það glímir við margþætta samfélagslega örorku og það er mjög erfitt að koma sér í virkni þegar maður er búinn að vera atvinnulaus lengi og fær alltaf nei eða fær ekki einu sinni svör. Væri ekki nær að taka aðeins blíðlegar utan um þetta fólk? Það var varað við því hérlendis gætu myndast hópar sem væru í þeirri stöðu að fá alls ekki atvinnu. Það hefur verið mikið um hópuppsagnir og það er þekkt að fólk sem er komið á ákveðinn aldur á mjög erfitt með að fá vinnu, það er bara þekkt og við skulum ekkert vera feimin við að segja það upphátt. Ég hef heyrt í mjög mörgum sem búa við afar erfiðar aðstæður og það fólk getur ekki lifað af helmingi minni framfærslu. Þó svo að einhver hluti þessa hóps færi í vinnu, hefur þá verið gerð úttekt á því hversu vel fólki helst á vinnu þegar það tekur vinnu í örvæntingu, oft án þess að hafa burði til þess? Ég veit að það er ómögulegt fyrir einstætt foreldri að vera t.d. í vaktavinnu eða í vinnu um helgar. Það er ómögulegt. Er tekið með í reikninginn stuðningsnet í kringum þessa aðila? Ég held ekki.

Ég held að þarna hafi einhver excel-hugsun yfirhöndina, þarna er verið að reyna að klóra í bakkann af því að sveitarfélögin mótmæltu því að fá yfir sig alla þá bótaþega sem teknir voru fyrirvaralaust af sínum réttilegu bótum. Það er með ólíkindum. Mundi einhver annar sætta sig við að rétturinn væri tekinn af manni afturvirkt? Nei. En það er bara þannig að þegar fólk er niðurbrotið hefur það ekki getu til þess að berjast fyrir sínum réttindum. Það er hlutverk okkar alþingismanna að sjá til þess að ekki sé brotið á réttindum þeirra sem eiga erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér sér til varnar gagnvart óréttlátu og ómannúðlegu kerfi. Ég vil ekki vera þátttakandi í því á hinu háa Alþingi að skapa lagaumhverfi sem gerir stöðu mjög margra Íslendinga mjög erfiða, stöðu fólks sem er nú þegar í mjög erfiðum kringumstæðum. Ég vil ekki vera þátttakandi í slíkri lagasetningu og ég mun gera það sem ég get til þess að þetta verði aldrei að veruleika. Ég vænti þess að málið fari til hv. velferðarnefndar og að því verði breytt, í það minnsta verði aldrei samþykkt að gera þetta fyrr en að búið er að tryggja að fólk falli ekki ofan í gjárnar í kerfinu, að tryggt verði að enginn maður verði látinn búa við hálfar framfærslutekjur frá sveitarfélagi. Það er nánast enginn peningur. Á fólk að fara og stela sér til matar? Hvað er verið að leggja til? Á fólk að svelta? Er það það sem við viljum í velferðarsamfélaginu á Íslandi?

Nú er talað um landið sé að rísa. Eigum við þá ekki að taka utan um þá sem hafa það verst? Eða ætlum við að fara aftur til ársins 2007 þegar raðirnar hjá mæðrastyrksnefnd voru ansi langar? Eigum við að fara aftur í tímann þegar fyrrverandi forsætisráðherra sagði á Alþingi að fólk hefði ekkert á móti því að fá ókeypis föt hjá mæðrastyrksnefnd? Slík er veruleikafirringin hjá fólki sem hefur ekki búið við fátækt. Og þó að það hafi kannski búið við fátækt þegar það var krakkar þá man það ekkert eftir því í dag.

Fátækt er skammarblettur á þessu samfélagi. Með þessari lagasetningu ætlum við að dýpka enn á vonleysi, á vandræðum fólks sem við eigum að taka utan um og hjálpa með jákvæðum úrræðum. Það voru mörg mjög jákvæð úrræði sett í gang í kjölfar hrunsins sem hjálpuðu t.d. fólki að fara í nám, en það eru ekki allir sem geta það. Og það er enginn í þeirri stöðu að sitja heima hjá sér og gera ekki neitt með nánast enga framfærslu „af því bara“, út af því að það er svo gaman. Það er bara ekki þannig. Ef fólk er í þannig stöðu að það getur ekki náð sér í vinnu þó að það reyni, þá getur það ekki náð sér í vinnu. Ef einhverjir einstaklingar eru þannig að þeir vilja ekki fá vinnu, sem eru mjög fáir, þá er það út af einhverjum öðrum dýpri félagslegum ástæðum sem kalla á annars konar stuðning en að setja fólk út á guð og gaddinn.