144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[16:49]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það er mjög góð spurning, ég þakka hv. þingmanni fyrir hana. Það er alveg ljóst að þetta mun einungis ýta fólki dýpra inn í einhverjar kringumstæður sem er mjög erfitt að komast út úr. Ég hefði viljað sjá hvatakerfi.

Þetta minnir mig svolítið á það þegar á að rassskella börn til að þau hagi sér betur, hér eigi að hræða fólk til að því gangi betur. Það virkar ekki þannig. Allt sem maður gerir út frá ótta er dæmt til þess að mistakast, og til lengri tíma held ég að nauðsynlegt sé að skoða þessi kerfisgöt og hvernig er hægt að búa til stuðningsnet. Við höfum færst sífellt meira inn í þannig borgarsamfélag þar sem enginn þekkir nágranna sína og það eru engin stuðningsnet fyrir fólk, það hverfur. Það náðist aldrei að búa til mjög öfluga miðstöð þar sem fólk hittist. Ég held að það hafi verið miðstöð uppi í Breiðholti og á Ásbrú og á Akureyri þar sem var frábært starf en einhvern veginn þá skilaði sér ekki mjög margt fólk þangað og það vantaði hvata, sér í lagi í Reykjavík. Ég óttast að fólk týnist í kerfinu. Þess vegna þurfum við virkilega að leggja okkur fram við að finna út hvernig við getum búið til hvata fyrir fólk til að fara í virkni. Það eru til mjög ítarlegar rannsóknir á því hvað það er erfitt fyrir fólk sem hefur verið atvinnulaust í ákveðinn tíma að verða virkt aftur. Ég held að framfærsluskerðing sé ekki rétta leiðin, eða ég veit það, ég veit að það er ekki rétta leiðin.