144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[16:51]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin og við lítum greinilega mjög líkum augum á þessi mál. Ég tók einmitt eftir því þegar ég las greinargerð með frumvarpinu að þar er talsvert talað um eða er svolítil úttekt á því hvaða sparnaðaráhrif þetta muni hafa. Það liggur hins vegar engin greining fyrir á því hvaða félagslegu áhrif þetta kemur til með að hafa inn í framtíðina. Ég held að þar séu við komin á mjög hálan ís.

Það er annað sem ég tók eftir í ræðu hv. þingmanns og það var þegar hún nefndi tekjutengingar við maka. Ég velti því fyrir mér að nú tókst öryrkjum eftir margra ára baráttu og einhverja dóma að fá því loksins breytt að tekjur öryrkja yrðu ekki tengdar við tekjur maka. Mér finnst full ástæða til þess að velta því upp hvort við séum komin á þann stað í félagsþjónustukerfinu og framfærslu sveitarfélaga að við eigum að afnema þar tekjutengingar við tekjur maka og líta á þá sem einhverra hluta vegna þurfa á framfærslu sveitarfélags síns að halda sem einstaklinga en ekki viðhengi við einhvern annan í fjölskyldunni. Ég mundi gjarnan vilja heyra hvernig hv. þingmanni hugnast þessi hugmynd sem ég kasta hérna fram.