144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[17:14]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ræðu minni flutti ég ágæt rök fyrir þessu máli, að vísu að mínu mati, það getur verið að hv. þingmaður sé ósammála mér. Í greinargerð með frumvarpinu koma líka fram rök fyrir málinu og ástæða þess að ég stend hér og tala fyrir því.

Það er hins vegar mjög einkennilegt að heyra mjög lítið í málflutningi hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur um reynslu Hafnfirðinga í þessum efnum ef við förum yfir rökin og eins mjög jákvæða reynslu í Hafnarfirði þar sem sett var af stað verkefnið Áfram – Ný tækifæri í Hafnarfirði. Þar var sett fram mjög virk atvinnustefna sem snýr að félagsþjónustunni og hefur skilað góðum árangri þar sem fólk hefur fengið vinnu í góðu samstarfi við Vinnumálastofnun. Það er ekki þannig að verið sé að afhenda fólki tékka eða fjármuni, heldur er sest niður með hverjum og einum og unnin heildstæð áætlun til að hjálpa fólki. Það er það sem ég tala fyrir og sem ég tel að menn hafi verið að gera rétt í Hafnarfirði. Það var það sem Vinstri grænir í Hafnarfirði gerðu vel.

Ég tel hins vegar að ramma þurfi þetta verulega af því að það á að mínu mati alls ekki að vera heimilt, eins og er núna í þeirri lagalegu óvissu sem snýr að skilyrðingu fjárhagsaðstoðar, að skerða aðstoð sem er sérstaklega ætluð börnum samkvæmt reglum sveitarstjórnar. Hér er mjög skýrt tekið fyrir það.

Ég nefndi hér dæmi um Reykjavíkurborg, að verið sé að skerða bætur til fólks sem hefur læknisvottorð og sem er ekki vinnufært. Það er nokkuð sem ég held að sé mjög brýnt að nefndin fari mjög vel yfir. (Forseti hringir.)

Hér hafa komið fram málefnalegar og góðar tillögur sem snúa að því hvernig ramma eigi af þessar skerðingar og skilyrðingar. Ég vona svo (Forseti hringir.) sannarlega að nefndin fari vel yfir það. (Forseti hringir.) En þetta er að mínu mati gott (Forseti hringir.) mál sem hjálpar fólki.