144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[17:54]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Já, ég tel að okkur öllum sé hollt að geta sett okkur í spor annarra, við eigum að þurfa þess og eigum að gera það, að setja okkur í spor annarra. Við eigum að ímynda okkur að við þurfum að ganga þessi þungu spor til sveitarfélagsins sem við eigum heima í og fylla út umsókn um fjárhagsaðstoð. Það er auðvitað oft þyngra en tárum taki.

Út af hverju fjölgar fólki sem sækir um fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélögunum, út af hverju? Eigum við ekki líka að spyrja okkur að því? Er þá ekki eitthvað að í samfélaginu sem veldur því að fólki fjölgar sem þarf á þessari aðstoð að halda? Er ekki eitthvað mikið að? Misskipting í þjóðfélaginu er að aukast mikið og húsnæðismálin eru í raun og veru í lamasessi, eins og hefur verið komið inn á hér, að efnaminna fólk, ungt fólk hefur ekki nokkra möguleika á að eignast húsnæði og leigan er þannig á markaði að hún er auðvitað það há að fólk ræður heldur ekki við að greiða það sem til þarf. Oftar en ekki leitar fólk á náðir fjölskyldunnar og býr lengur í heimahúsum, ungt fólk sem vill stofna sitt heimili.

Ég held að við þurfum að taka þessa umræðu. Misskipting er að aukast, afleiðingarnar eru greinilegar, að fleiri og fleiri eru að komast á þann stað að þurfa að sækja aðstoð, samfélagslega aðstoð, sem við annars þyrftum ekki að standa frammi fyrir ef kökunni væri skipt rétt og auðurinn væri ekki alltaf að færast meir og meir á fárra manna hendur.