144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:06]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Helstu áhersluatriði þess eru að skýra ákvæði sem snúa að reglum sveitarfélaga um fjárhagsaðstoð og eyða óvissu. Þrátt fyrir lagalega óvissu eru mörg sveitarfélög með ákvæði um skerðingar í reglum sínum um fjárhagsaðstoð. Annað áhersluatriði er að virkja atvinnuleitendur sem hafa fullnýtt rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins til þátttöku að nýju á vinnumarkaði og koma í veg fyrir að langvarandi atvinnuleysi leiði til óvinnufærni.

Töluverð umræða hefur verið um hvort sveitarfélögin hafi heimild til að setja í reglur sínar skilyrði um virkni fyrir því að einstaklingar fái greidda fjárhagsaðstoð. Sú umræða hefur fyrst og fremst snúið að þeim sem teljast vinnufærir. Mikilvægt er að hafa í huga að um er að ræða hóp fólks sem að undangengnu mati hefur verið metinn vinnufær. Matið byggir á samræmdu, faglegu mati á færni til vinnu. Ef þetta frumvarp verður að lögum skal matið unnið í samvinnu við umsækjanda og samhliða gerð einstaklingsbundin áætlun um framvindu.

Í frumvarpsdrögunum er prýðisgóð upptalning á því sem talist getur virk atvinnuleit. Mig langar að draga það fram hér, með leyfi forseta:

„Mat á vinnufærni einstaklings skal byggjast á samræmdu faglegu mati á færni til vinnu. Matið skal unnið í samvinnu við umsækjanda og samhliða gerð einstaklingsbundinnar áætlunar um framvindu. Til virkrar atvinnuleitar samkvæmt 1. mgr. getur talist eftirfarandi:

a. að hafa frumkvæði að starfsleit,

b. að vera reiðubúinn að ráða sig í hvert það starf sem atvinnuleitandi er fær um að sinna samkvæmt mati á vinnufærni og greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, samanber 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, með síðari breytingum, en þar með telst að vera reiðubúinn að mæta í atvinnuviðtöl,

c. að sækja um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, samanber 7. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006,

d. að taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum, þar með talið námsúrræðum,

e. að veita félagsþjónustu sveitarfélaga eða eftir atvikum Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur viðkomandi á að fá starf við hæfi.

Aðstoð veitt af félagsþjónustu sveitarfélaga skal miðast við einstaklingsbundnar þarfir hvers og eins einstaklings og skal meðal annars veita félagslega ráðgjöf samkvæmt V. kafla laga þessara.“

Hér er einnig verið að banna að setja skilyrði gagnvart þeim sem eru óvinnufærir. Hér erum við að tala um vinnufært fólk.

Í frumvarpinu kemur einnig fram og lagt til að ráðherra gefi árlega út leiðbeinandi reglur til sveitarfélaga um framkvæmd fjárhagsaðstoðar þar sem meðal annars sé kveðið á um viðmiðunarfjárhæðir og að sveitarfélög fái skýrari heimildir til að skilyrða fjárhagsaðstoð félagsþjónustu. Lagt er til að heimilt verði að kveða á um skerðingu mánaðarlegra grunnfjárhæða í tvo mánuði í senn. Þá er lagt til að ekki verði heimilt að skerða mánaðarlega grunnfjárhagsaðstoð um meira en helming.

Þarna eru tvíþættar breytingar varðandi félagsþjónustu sveitarfélaganna. Annars vegar skal ráðherra gefa árlega út leiðbeinandi reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga þar sem verður meðal annars kveðið á um viðmiðunarfjárhæðir fjárhagsaðstoðar sem sveitarfélög geta nýtt sér til að setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar. Um leið eykur það möguleika sveitarfélaga til að samræma betur fjárhæðir fjárhagsaðstoðar og getur virkað sem hvatning til að uppfæra viðmiðunarfjárhæðir með reglubundnari hætti en raunin hefur jafnvel verið.

Meginmálið í þessu frumvarpi er að þar er lagt til að sveitarfélög fái skýrar heimildir til að skilyrða ákvörðun um fjárhagsaðstoð við mat á vinnufærni og virka atvinnuleit þeirra sem taldir eru vinnufærir. Það er atriði sem við megum ekki gleyma.

Virk atvinnuleit felur í sér frumkvæði að starfsleit, eins og ég kom að áðan, þ.e. að vera tilbúin að ráða sig í starf sem viðkomandi getur sinnt og að sækja um og taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Líkt og kemur fram í greinargerð frumvarpsins er breytingunni ætlað að stuðla að því að atvinnuleitendur séu í virkri atvinnuleit þann tíma sem þeir fá greidda fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum. Uppfylli einstaklingur ekki skilyrði um virka atvinnuleit verður sveitarfélögum heimilt að skerða fjárhagsaðstoð hans og kann það að draga úr útgjöldum hjá sveitarfélögunum. Skerðing á fjárhagsaðstoð mun aðeins koma til að undangengnu mati, eins og áður hefur komið fram, á vinnufærni og er miðað við að Vinnumálastofnun annist það mat, en áður hafi starfsmenn félagsþjónustunnar unnið ákveðnar greiningar og undirbúningsvinnu með umsækjendum. Þetta er ekki úr lausu lofti gripið.

Eins og fólk þekkir sýnir nýleg rannsókn Vinnumálastofnunar hversu miklu máli virk atvinnustefna skiptir, sem og gott samstarf stofnunarinnar við sveitarfélögin. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að meiri hluti þeirra sem þátt tóku í könnuninni og fullnýtt höfðu rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins hafði hafið þátttöku á vinnumarkaði að nýju þegar könnunin var gerð, eða 57,8% svarenda. Að auki höfðu 5,8% hafið nám. Þannig sögðust 63,6% svarenda vera launamenn í fullu starfi, launamenn í hlutastarfi, í sjálfstæðum rekstri eða í námi. Eins og getið er þá er eitt þekktasta dæmið um virkan stuðning við fólk í fjárhagsaðstoð sveitarfélaga átaksverkefnið Áfram í Hafnarfirði sem fékk viðurkenningu fyrir nýsköpun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu árið 2015. Stefnt er að því að í sem flestum tilvikum verði aðstoð veitt til virkni, vinnu og sjálfsbjargar í stað þess að vera hlutlaus. Öll þekkjum við það að virkni eykur hamingju, styrkir einstaklinginn og hjálpar honum að vera virkur samfélagsþegn.

Í greinargerð við frumvarpið kemur fram að réttur einstaklinga til félagslegrar aðstoðar byggist á 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins og að hann skuli einskorðast við þá sem þurfa. Í athugasemdum við ákvæðið segir að ekki hafi verið ráðgert að sá sem geti séð nægjanleg fyrir sér sjálfur þurfi að njóta réttar til slíkrar aðstoðar. Með vísan til umrædds skilyrðis í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrár verði það því talið eiga við málefnaleg rök að styðjast að setja skilyrði um virka atvinnuleit fyrir rétt einstaklings sem telst vinnufær að hluta eða öllu leyti til fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga. Sams konar skilyrði um virka atvinnuleit hafa verið sett fyrir rétti einstaklings til atvinnuleysistrygginga, samanber 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hér er sem sagt verið að tryggja rétt einstaklingsins.

Ég vil nálgast þetta með því hugarfari að við séum að hvetja fólk til þátttöku, fólk sem er fært til þátttöku, búið að fara í gegnum mat og fær stuðning til þess og er klárt í að verða þátttakendur á nýjan leik, eflaust með einhverri aðstoð eða einhverjum stuðningi. Ef sú er ekki raunin þá ber okkur að styðja einstaklinginn áfram á þeim nótum sem gert var, þá er einstaklingurinn í félagslega kerfinu og við eigum að halda vel utan um þá einstaklinga sem þess þurfa. Um það á öryggisnetið að halda. Við megum aldrei gefa það eftir. Við þurfum að styðja og styrkja þá einstaklinga sem þurfa að komast áfram og aftur út í samfélagið sem virkir þegnar því að það mun auka lífsgæði þeirra og hamingju.