144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:15]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Egilsdóttur ræðuna. Hún vill nálgast þetta frumvarp þannig að verið sé að veita fólki rétt til þess að vera ekki skilyrt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ég tel samt mjög mikilvægt að við horfum ekki fram hjá því að sveitarfélögunum ber skylda til framfærslu, svo auðvitað eins og það er í lögunum frá 1991 um félagsþjónustu er þetta rammalöggjöf sem gefur sveitarfélögunum ákveðið svigrúm. En mín skoðun er sú að þarna sé verið að búa til einhvers konar atvinnuleysistryggingalöggjöf B úr félagsþjónustulögunum. En þetta eru gjörólík kerfi með ólík hlutverk. Atvinnuleysistryggingarnar eru vinnumarkaðstengdar tryggingar sem fólk vinnur sér inn réttindi til á vinnumarkaði og er á atvinnuleysisbótum af því að það er búið að vinna sér inn réttinn og er í virkri atvinnuleit og það er gerð mjög skýr krafa um það. Þegar til félagsþjónustunnar kemur er það til þess að tryggja fólki framfærslu þegar það hefur ekki að öðru að hverfa.

Ég lít jafnframt svo á og ég held að langflestir séu sammála um að mjög mikilvægt sé að fólki sé mætt og því sé hjálpað til sjálfshjálpar, enda er beinlínis kveðið á um það í lögunum. Þá greinir okkur á um hvort það eigi að gera með refsingu eða hvatningu.

Ég vil spyrja þingmanninn um þessar skilyrðingar sem hún vill líta á sem einhvers konar rétt, að verið sé að tryggja rétt. Ég lít á þær sem refsivönd. Hvað verður um það fólk sem við sviptum framfærslu? Hefur (Forseti hringir.) þingmaðurinn áhyggjur af því hvað verði um fólk?