144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:22]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur andsvarið. Ég held að á mörgum sviðum deilum við skoðun á mikilvægi þess að netið okkar haldi, að við höldum utan um þá einstaklinga sem á því þurfa að halda.

Í ljósi þess að hér er atvinnuástand orðið mun betra en hefur verið, það er ýmislegt í samfélaginu sem horfir til betri vegar og ástandið virðist vera að batna að mörgu leyti, held ég að þessi leið geti orðið fleirum hvatning til að komast aftur til virkni. Það má aldrei verða svo að við förum að ýta fólki út af borðinu og afgreiða það sem vonlaust tilfelli. Þá erum við ekki að hugsa um fólkið okkar sem á því þarf að halda.

Hér í þessu frumvarpi erum við að tala um einstaklinga sem eru vinnufærir og geta tekið þátt í atvinnumarkaðnum. Hinum á ekki að hreyfa við, þeir halda áfram að fá sinn stuðning, en þessir einstaklingar munu að undangengnu mati og úttekt og stuðningi frá þar til lærðu fólki fá stuðning og það verða búnar til einstaklingsmiðaðar leiðir og haldið utan um einstaklinginn til að koma honum til virkni. Svo er spurning hversu lengi þarf að halda því áfram, hversu margir eru í þeim hópi og hvernig það vinnst áfram. Ég hef trú á því að þetta sé leið sem er fær.