144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:24]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þórunni Egilsdóttur fyrir ræðuna. Mér heyrist að við séum á svipaðri línu um skoðanir okkar og þær hugmyndir sem við sjáum í frumvarpinu sem tekur til þeirra einstaklinga sem eru vinnufærir.

Eins og fram kom í ræðu hv. þm. Þórunnar Egilsdóttur þá hafa mörg sveitarfélög ákvæði um skerðingar í reglum sínum en þar sem þetta er ekki nógu skýrt og er ekki í lögum þá eru ekki til gögn um umfang skerðinga og óvissan því mikil. Þetta frumvarp mun taka á því og yfirsýn yfir þá þætti verður mun betri. Ég endurtek að þetta tekur bara til þeirra einstaklinga sem eru vinnufærir. Þeir sem eru ekki vinnufærir halda þeim stað þar sem þeir eru á.

Einnig tekur frumvarpið til virkniúrræða. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort henni finnist ekki vera til bóta að einstaklingar fái stuðning við atvinnuleit og hvort hún líti ekki á það sem hvata fyrir einstaklinga sem hafa litla reynslu af vinnumarkaði eða hafa verið lengi frá vinnumarkaðnum að fá stuðning til að komast í starfsþjálfun og vinnustaðaþjálfun ef þörf er á. Í slíkum hvataúrræðum er unnið eftir einstaklingsmiðaðri nálgun út frá markmiðum sem hver og einn setur sér varðandi virkni, atvinnuleit og starfsvettvang. Síðan fær einstaklingurinn markvissa ráðgjöf, fræðslu og starfsþjálfun, sem sagt ákveðna ráðgjöf. Telur hv. þingmaður ekki að þetta geti verið til bóta fyrir einstaklinga sem hafa verið í langan tíma frá vinnumarkaði? (Forseti hringir.)