144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:26]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir andsvarið og spurninguna.

Jú, ég tel það að þetta geti orðið mikil hvatning og ég þekki raunar til þess og hef orðið vitni að því að sjá fólk sem fær réttan stuðning og rétta hjálp fara aftur af stað. Sumir þurfa bara örlitla hvatningu til að fara aftur af stað. Við vitum að þegar fólk hefur um lengri tíma verið frá vinnumarkaði, verið óvirkt, þarf stundum mikið átak og stundum minna, en flestir þurfa stuðning til að komast aftur af stað. Það er því gríðarlega mikilvægt að við horfum á hvern einstakling og vinnum út frá hæfileikum hans og kostum og styðjum hann til þess að verða virkur á nýjan leik.

Það tekur ekki alltaf langan tíma fyrir fólk að fara niður í þunglyndi eða vanvirkni, þannig að við þurfum að vera virkilega vakandi yfir því. Hver vika og hver mánuður sem líður hjá einstaklingnum í vanvirkni dregur úr líkunum á því að hann fari af stað aftur án aðstoðar og hjálpar.

Þannig að vissulega hef ég trú á þessu og dæmin sanna það eins og hafa verið tínd til hér í ræðum og ég minntist á hér áðan. Líkt og verið er að gera í skólakerfinu og víða annars staðar, þá þurfum við að horfa á einstaklinginn, vera með einstaklingsmiðaða nálgun og mæta fólki á þeim stað þar sem það er statt og leiða það áfram.