144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:54]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Já, ég held að það sé einmitt mjög mikilvægt að við sem sitjum í velferðarnefnd köfum mjög rækilega ofan í það hvað er vitað um hinar félagslegu afleiðingar þess þegar fólk er komið svo langt út á jaðarinn að það hefur enga framfærslu sem hægt er lifa á. Ég tek undir þær áhyggjur sem hafa komið fram í máli hv. þingmanns, að þá verði fólk að fara að framfleyta sér með glæpum eða annarri ólöglegri starfsemi og það getur varla verið sú framtíðarsýn sem við viljum hafa.

Ég vil líka taka undir áhyggjur hv. þingmanns af því hvort þetta sé bara fyrsta skrefið, hvort við munum sjá enn strangari skilyrðingar sem ná jafnvel til enn stærri hópa. Þess vegna finnst mér byrjað hér á svo röngum enda. Mig langar að prófa þá hugmynd á hv. þingmanni, hvernig henni hugnist það að setja í staðinn fram einhvers konar lágmarksupphæð sem fólk gæti svo með virkni bætt ofan á og þannig hvatt fólk til virkni. Væri það að hennar mati leið sem hefði betri félagsleg áhrif?