144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:55]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Já, ég held að það sé miklu eðlilegri nálgun að fólki sé tryggð ákveðin framfærsla sem er lífsnauðsynleg til þess að fólk komist af og síðan hafi fólk hvata til að leggja sig fram.

Ég vil taka fram að að jafnaði er fólk ekki lengi á fjárhagsaðstoð. Tíminn hefur lengst örlítið vegna þeirra erfiðu aðstæðna sem hér hafa verið. Þeir sem eru um lengri tíma á slíkri aðstoð búa við mjög alvarlegan vanda. Þá er það okkar sem samfélags í gegnum félagsþjónustu að aðstoða fólk við að komast út úr honum eða að milda hann eins og hægt er og gefa fólki tök á öðru lífsviðurværi en fjárhagsaðstoð, sem er mjög lág og að sjálfsögðu ekki möguleiki á að lifa af nema til mjög skamms tíma.

Það var ágæt úttekt í sænsku dagblaði á vítahring virkniúrræðanna, það er komin upp stétt fólks, á sama tíma og láglaunastörfum hefur fækkað um 150 þúsund á síðastliðnum tíu árum, þar sem eru 120 þúsund manns, eða hátt hlutfall af þeim, sem hefur verið atvinnulaus í lengri tíma, þó aldrei allan tímann en menn detta svona inn og út af vinnumarkaði vegna óöryggis á vinnumarkaði. Við eigum að hætta að horfa á þá sem fá annaðhvort fjárhagsaðstoð eða lífeyristryggingar og slíkt sem eitthvert mögulegt vandamál og að þar eigi fólk að herða sig. Við eigum að senda ábyrgðina þangað sem hún á heima, á atvinnulífið og á (Forseti hringir.) stjórnvöld sem bera ábyrgð á því að farið sé að lögum og reglum og réttindi og öryggi fólks tryggð.