144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[19:07]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn á ný fyrir. Með þessu frumvarpi er einmitt verið að ramma inn hvernig sveitarfélögum er heimilt — ekki skylt heldur heimilt — að setja reglur um veitingu fjárhagsaðstoðar, skilyrði um virka atvinnuleit. Það er tekið hér fram að óheimilt sé að skilyrða fjárhagsaðstoð til annars en umsækjanda sem metinn er vinnufær að hluta eða öllu leyti, og þá er óheimilt að skerða aðstoð sem sérstaklega er ætluð börnum samkvæmt reglu sveitarstjórnar.

Eins og kemur fram í greinargerð frumvarpsins er verið að ramma inn samstarf á milli félagsþjónustu sveitarfélaganna og Vinnumálastofnunar og þá þjónustu sem Vinnumálastofnun mun veita sveitarfélögum sem setja þess háttar reglur. Hér er því nákvæmlega verið að gera það sem þingmaðurinn kallar eftir, að setja ramma utan um það hvað sveitarfélögunum er heimilt að gera ef þau kjósa að setja skilyrðingar í reglur um fjárhagsaðstoð. Þeim er ekki skylt að gera það en ef þau kjósa svo er verið að ramma það inn þannig að þetta sé í samræmi við það sem við teljum rétt að gera.

Við sjáum að nánast öll sveitarfélög sem við höfum flett upp og athugað eru með þess háttar reglur og hafa ítrekað bent á að þau mundu vilja fá skýrari lagaramma utan um hvernig þetta eigi að vera. Hér er verið að leggja það til auk þess, eins og ég benti hv. þingmanni á, er verið að tryggja að fjármagn sé til staðar til þess að samstarfið geti gengið vel fyrir sig.