144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[19:13]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er svolítið ólíku saman að jafna, þ.e. refsingin gagnvart viðkomandi einstaklingi ef hann fellur ekki að því regluverki sem er stillt þarna upp varðandi fjárhagsaðstoðina og þeim viðmiðum sem sveitarfélögunum er þá skylt að skoða og samræma sín á milli. Við vitum að mismunandi stuðningur er í dag á milli sveitarfélaga og ekkert að því að skoða með hvaða hætti hægt er að reyna að samræma slíkt, og auðvitað vil ég líta til þess að það sé gert upp á við en ekki niður á við, þ.e. að sveitarfélögin séu þá ekki að samræma þessa aðstoð undir neikvæðum formerkjum. En maður spyr sig, eins og hv. þingmaður viðrar hér, hvað væri þá gert gagnvart sveitarfélögunum ef þau héldu bara áfram sínu striki. Og eins og hæstv. ráðherra nefndi, stjórnarskrárvarinn rétt sveitarfélaganna að ákveða með hvaða hætti þau skilyrtu fjárhagsaðstoð, því þau væru með mjög mismunandi skilyrðingar í þeim efnum. Er þá nokkuð sem segir að hægt sé að skikka sveitarfélögin til þess að hafa sambærileg viðmið í þessum efnum varðandi stuðning?

Mér finnst að við séum alltaf að koma aftur og aftur á sama stað. Erum við sammála um það sem samfélag að láta þennan hóp ekki falla einhvers staðar á milli og ekkert taki við? Eða erum við tilbúin til þess að losa okkur við þetta fólk og halda að þá séum við bara í betri málum og fólki hafi fækkað á (Forseti hringir.) fjárhagsaðstoðarskrá sveitarfélagsins og sveitarfélagið spari?