144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[19:17]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst þetta vera mjög góður punktur sem hv. þingmaður kom inn á varðandi það að beita Jöfnunarsjóði sveitarfélaga í þeim tilgangi að jafna þá byrði af fjárhagslegum útgjöldum sem fylgir því að vera ábyrgt sveitarfélag og axla skyldur sínar í þeim efnum með fjárhagsaðstoð. Við vitum alveg að tilhneigingin er sú að fólk sem er í erfiðum sporum er kannski frekar búsett í ákveðnum sveitarfélögum þar sem meiri félagsþjónusta er veitt. Ákveðin sveitarfélög hafa hrist svolítið af sér þann hóp sem þarf að sækja sér aðstoð í félagslegri þjónustu. Út af hverju ættu þau vel efnuðu og vel stæðu sveitarfélög, sem eru kannski ekki með marga á sínum vegum sem þurfa á félagsþjónustu og fjárhagsaðstoð að halda og öðru því um líku, ekki að greiða í jöfnunarsjóð til að jafna þessa byrði á milli sveitarfélaga? Mér finnst það auðvitað liggja í augum uppi að það eigi að vera þannig og að því ætti hæstv. félagsmálaráðherra að vinna frekar en að vera að stilla af regluverkin fyrir sveitarfélögin til að þau eigi auðveldara með að losa sig við ja, ég vil segja óæskilegt fólk sem skapar útgjöld. Ég mundi telja að hitt væri miklu skynsamlegri nálgun og ætti að vera auðvelt fyrir hæstv. ráðherra að fá stuðning okkar í stjórnarandstöðunni, reikna ég með, til að leggja fram slíkt frumvarp sem jafnar þá á milli sveitarfélaga (Forseti hringir.) í þessum efnum.