144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[19:27]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er akkúrat þetta sem við ræddum og höfum rætt í þessari umræðu, hvað verður um þetta fólk. Þegar Atvinnuleysistryggingasjóður var skertur í fjárlagagerðinni var eins og ríkisstjórnin héldi að það fólk gufaði upp sem missti framfærslu sína. Eitthvað af því fólki færist yfir til sveitarfélaganna en einhverjir geta ekki hugsað sér að leita á náðir sveitarfélaga. Það er deginum ljósara að þetta fólk hverfur ekki. Það er viðbúið, að ég held, að fólki með örorku fjölgi og fólki sem lendir á endurhæfingarlífeyri o.s.frv.; það er jú svo margt annað að og ekkert endilega víst að þó að fólk sé sett í tilteknar aðgerðir þá henti það því.

Í frumvarpinu er talað um að leita eigi leiða við að finna farveg. En af því að hér hefur líka verið vitnað í Hafnarfjarðarbæ þá fór hluti af því fólki sem þar fékk úrræði vinnu hjá bænum. Af hverju gat bærinn ekki boðið því fólki vinnu án skilyrða, hvað olli því? Við getum hjálpað til á ýmsan hátt. Úrræðin sem hér eru talin upp geta alveg verið fyrirbyggjandi til þess að fólk festist ekki inni í þessu kerfi frekar en að binda það við svona neikvæðar skilyrðingar. Ég held að það sé mjög einfalt að gera þetta. Auðvitað skila sér ekkert allir til virkrar vinnu í þessu úrræði frekar en í öðrum, ég held að það sé alveg ljóst. Það er bara eðlilegt að fólk (Forseti hringir.) átti sig á því strax að það verður aldrei 100% árangur af (Forseti hringir.)svona aðgerðum.