144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[19:36]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Ég ætla að byrja þar sem hún endaði. Vissulega hafa minni sveitarfélög mörg hver komið sér saman um ýmsa þjónustu til þess að stækka, hvort sem það er í barnaverndarmálum eða í félagsþjónustu, þótt það sé alls ekki algilt. Það breytir því þó ekki að þegar maður býr í 2.000 manna samfélagi og tekur hugsanlega nágrannasveitarfélagið með sér, sem verður um 4.000 manna samfélag, þá er hæfir vel að segja að allir þekki alla.

Við þekkjum þessa umræðu víðar, ekki bara tengda félagsþjónustu eða öðru slíku. Við þekkjum hana úr skólanum, samanber: Þessi er svona af því að pabbi hans var svona eða hinsegin. Það er kannski ákveðið fyrir fram að viðkomandi eigi að geta unnið og þeir sem að málum hans koma gætu lent í þeirri stöðu. Það getur vissulega verið erfitt.

Ég hef áður vitnað hér til samtals sem ég átti við tvær konur. Önnur er úr aðeins stærra sveitarfélagi en hin sem er úr litlu. Sú sem var í litla sveitarfélaginu gat ekki hugsað sér að fara fram á félagsaðstoð frá bænum, eins og hún sagði, hún gat ekki hugsað sér það, henni fannst það svo mikil niðurlæging. Það er kannski svipað og með ræstingakonu sem var sagt upp — hún var búin að vinna mjög lengi á sama stað. Það er líka sá vinkill á þessu. Hvað getum við gert? Er hægt að mæta þessu fólki heilt yfir með einhverju öðru en því að það þurfi að segja sig á bæinn, ef þetta er fólk í einhverjum ákveðnum aldurshópi sem hefur einhverra hluta vegna misst vinnuna, og styðja það áfram til vinnu án þess að skerða félagsaðstoðina við það? Auðvitað er mjög sérstakt að ekki skyldi hafa verið staðið vörð um, (Forseti hringir.) fyrir löngu, að viðmið framfærslu væri til dæmis það sem velferðarráðuneytið setur þannig að fólk hefði möguleika á því að komast af.