144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[19:41]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er akkúrat svo og ég þekki það úr mínu starfi áður en ég kom hingað inn á þing að þurfa að ræða við ungt fólk sem var orðið 23 ára — líklega er viðkomandi að verða 25 ára og getur því kannski ekki haldið áfram í skóla sem hann var ekki búinn með — einstæðir foreldrar á bak við, einstæð móðir í einu tilviki sem ég man eftir, átti í rauninni ekkert og á ekkert nema húsið sem hún á heima í með þeim skuldum sem á því hvíla. Barnið hennar búið að vera í alls konar ásigkomulagi í töluverðan tíma, rífur sig svo upp, nær sér á strik og ákveður að fara í skóla og reynir að vinna eitthvað með en vantar fjármuni til þess að klára sig af því. En þá koma þessi lágu viðmið fram og af því að viðkomandi býr heima hjá foreldri sem hefur einhverjar skammarlega lágar tekjur þá var viðkomandi neitað. Eftir svolítið fum náðist í gegn að laga það en það voru mjög þung spor fyrir þennan unga mann sem hér um ræðir. En það er fullt af svona dæmum, það eru örugglega þúsund svona dæmi, mörg þúsund svona dæmi sem við búum við.

Þegar við förum að draga saman alla þá hluti sem ríkisstjórnin er búin að gera til að skerða afkomu þessa fólks til bætts lífs, skerða atvinnuleysistryggingar, koma í veg fyrir skólagöngu, miða að því að pína fólk í eitthvað sem það er kannski ekki fært um, sumir alveg örugglega færir um og geta það, en við erum alltaf með einhvern hóp sem passar ekki inn í þetta. Það er hver aðgerðin á fætur annarri og þegar allt telur saman erum við ekki með gott mál í fanginu.