144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

TiSA-viðræður og heilbrigðisþjónusta.

[10:46]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál kemur að mér með sama hætti og hv. fyrirspyrjanda, ég hafði ekkert heyrt af þessu fyrr en í fréttum í gær. Það er enginn starfsmanna velferðarráðuneytisins sem á aðild að einhverjum viðræðum í þessum efnum. Það hefur verið upplýst, eins og hv. þingmaður gat um, að utanríkisráðuneytið hefur tjáð sig um þetta efni. Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið hefur utanríkisráðuneytið ekki tekið þátt í þessum viðræðum og telur að sú tillaga sem þarna er uppi eigi ekki heima í TiSA-samningaviðræðunum. Af þeim ástæðum hefur utanríkisráðuneytið ekki tekið þátt í umræðum um þennan hluta málsins, að því er ég er upplýstur um.

Eina atriðið sem unnið er að í mínu ráðuneyti um þessar mundir er innleiðing á tilskipun um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri sem er tilskipun sem átti að hafa tekið gildi í lok janúar á þessu ári, og hefur legið fyrir í mörg ár að Íslendingum bæri að innleiða. Að því er unnið og ég vænti þess að frumvarp þar að lútandi verði lagt fram hér á vorþingi. Hvernig það kemur til með að virka og hvernig það lagaumhverfi kemur til með að líta út get ég á þessu stigi ekki tjáð mig um, en það skýrist vonandi innan mánaðar þegar frumvarpið verður tilbúið og hægt að leggja það fyrir þingið.